Leitin að argentínska kafbátnum San Juan í kapphlaupi við tímann vekur upp minningar um mannskæð kafbátaslys fortíðarinnar. Skemmst er að minnast hins hrikalega slyss er rússneski kafbáturinn Kursk sökk og áhöfnin barði skipsskrokkinn að innan með stálrörum í þeirri veiku von að björgunaraðgerðum yrði ekki hætt.
25. apríl árið 2003: Kínverski kafbáturinn Ming 361 finnst eftir leit í Gulahafi. Hann var dísilknúinn og talið er að bilun hafi orðið í vélum hans með þeim afleiðingum að súrefni um borð fuðraði upp og öll áhöfnin, 70 manns, kafnaði. Þetta er fyrsta kafbátaslysið sem kínversk stjórnvöld upplýsa um.
12. ágúst árið 2000: Tvær öflugar sprengingar verða um borð í rússneska kjarnorkukafbátnum Kursk á Barentshafi. Flestir þeirra 118 sem voru um borð létust í sprengingunum en 23 lifðu af og höfðust við í öðrum enda hans og biðu björgunar. Rússar reyndu án árangurs í viku að opna hlera til að ná skipverjum út. Loks voru norskir kafarar kallaðir til og náðu þeir á örfáum tímum að opna hlerann. En þá var það um seinan og mennirnir 23 höfðu kafnað.
7. apríl árið 1989: Sovéski kjarnorkukafbáturinn K-278 Komsomolets sekkur í Noregshafi eftir að eldur kviknaði um borð. Hluta áhafnarinnar tókst að flýja frá borði áður en báturinn sökk en 42 af þeim 69 sem voru um borð létust.
11. apríl árið 1970: Eldur kviknar um borð í sovéskum kafbáti í Biskaí-flóa norður af Spáni. Báturinn sökk og 52 úr áhöfninni fórust. Einhverjir eru sagðir hafa komist lífs af en sovésk stjórnvöld upplýstu aldrei um þann fjölda.
8. mars árið 1968: Sovéski kafbáturinn K-129, sem var hlaðinn kjarnorkueldflaugum, sekkur í eftirlitsferð um Kyrrahafið. Allir þeir 98 sem voru um borð létust. Flakið fannst loks norðvestur af Oahu á tæplega fimm kílómetra dýpi. Kenningar eru uppi um að báturinn hafi lent í árekstri við bandarískan kafbát en bandaríski sjóherinn segir hins vegar að sprenging um borð hafi valdið slysinu.
21. maí árið 1968: Kafbáturinn Scorpion í eigu bandaríska sjóhersins hverfur suðvestur af Asoreyjum í Atlantshafi. Um borð voru 99. Flak bátsins, sem knúinn var kjarnorku, fannst fimm mánuðum síðar á yfir þriggja kílómetra dýpi. Talið er að sprenging hafi orðið um borð.
10. apríl árið 1963: Bandaríski kafbáturinn Thresher sekkur suðaustur af Cape Cod í Massachusetts. Allir sem voru um borð, 129 talsins, létust og var um að ræða mannskæðasta kafbátaslys á friðartímum í sögu Bandaríkjanna. Kafbáturinn var kjarnorkuknúinn orrustubátur. Áhöfnin hafði tilkynnt um minni háttar bilun en áður en björgunarskip komst á vettvang ágerðist hún með þeim afleiðingum að báturinn sökk til botns á það mikið dýpi að hann þoldi ekki vatnsþrýstinginn og féll saman. Flakið fannst á um 2,5 kílómetra dýpi á sjávarbotninum.
Júní árið 1939: Breski kafbáturinn Thetis sekkur við tilraunasiglingar í Liverpool-flóa. Um borð voru 103. Áhöfninni tókst að halda bátnum á floti í nokkra klukkutíma en aðeins fjórum tókst að komast frá borði. Aðrir ýmist köfnuðu eða drukknuðu í slysinu.
17. desember árið 1927: Bandaríski kafbáturinn S-4 sökk eftir að hafa lent í árekstri við strandgæsluskip úti fyrir ströndum Provincetown í Massachusetts. Einhverjir úr hinni fjörutíu manna áhöfn létust strax en sex lifðu áreksturinn af allt þar til súrefni um borð var á þrotum.