Mnangagwa svarinn í embætti forseta á morgun

Emmerson Mnangagwa verður svarinn í embætti forseta Simbabve á föstudag.
Emmerson Mnangagwa verður svarinn í embætti forseta Simbabve á föstudag. AFP

Em­mer­son Mn­angagwa, nýr leiðtogi Simba­bve, sagði mann­fjöld­an­um sem fagnaði hon­um í höfuðborg­inni Har­are að nýtt skeið lýðræðis tæki nú við í Simba­bve. Robert Muga­be, for­seti lands­ins til ára­tuga, sagði af sér á þriðju­dag eft­ir mik­inn þrýst­ing frá hern­um, al­menn­ingi og eig­in stjórn­mála­flokki.

Mn­angagwa kom til Simba­bve í gær, en hann flúði land þegar Muga­be rak hann úr embætti tveim­ur vik­um fyrr í því skyni að geta gert eig­in­konu sinni Grace Muga­be fært að taka við embætti for­seta.

„Fólkið hef­ur talað. Rödd fólks­ins er rödd Guðs,“ sagði Mn­angagwa við stuðnings­menn sína sem komu sam­an fram­an við höfuðstöðvar stjórn­ar­flokks­ins ZANU-PF. „Í dag verðum við vitni að upp­hafi nýs lýðræðis.“

Stuðningsmenn Emmerson Mnangagwa tóku á móti honum við höfuðstöðvar Zanu-PF …
Stuðnings­menn Em­mer­son Mn­angagwa tóku á móti hon­um við höfuðstöðvar Zanu-PF stjórn­ar­flokks­ins í höfuðborg­inni Har­are. AFP

Simba­bve var eitt sinn það Afr­íku­ríki þar sem efna­hag­ur­inn þótti í hvað mest­um blóma, en hann hef­ur nú verið í niður­sveiflu ára­tug­um sam­an, m.a. vegna stefnu­mála Muga­bes sem til að mynda fyr­ir­skipaði eigna­nám á bónda­bæj­um í eigu hvítra bænda og prent­un­ar pen­inga­seðla sem leiddi til óðaverðbólgu.

Lof­ar störf­um og bætt­um efna­hag

Flest­ir hinna 16 millj­ón íbúa Simba­bve eru fá­tæk­ir og at­vinnu­leysi er mikið.

Mn­angagwa hef­ur lofað að taka á þeim mál­um að sögn Reu­ters-frétta­stof­unn­ar. „Við vilj­um bæta efna­hag okk­ar, við vilj­um frið og við vilj­um störf, störf, störf,“ sagði hann við mann­fjöld­ann. „Vilji fólks­ins mun alltaf hafa bet­ur,“ sagði hann.

Jacob Mudenda, for­seti þings­ins, sagði í gær að  Mn­angagwa yrði lát­inn sverja embættiseið sem for­seti lands­ins á föstu­dag eft­ir að stjórn­ar­flokk­ur­inn, ZANU-PF, hefði til­nefnt hann sem eft­ir­mann Muga­bes.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert