Munkarnir vilja ekki rohingjana

Flóttamaður frá Búrma stendur við flóttamannabúðir rohingja í Bangladess.
Flóttamaður frá Búrma stendur við flóttamannabúðir rohingja í Bangladess. AFP

Harðlínumunkar í Búrma eru ekki alls kostar sáttir við það að senda eigi þúsundir rohingja aftur til landsins frá nágrannaríkinu Bangladess. Þeir segja engar þjóðernishreinsanir hafa átt sér stað líkt og Sameinuðu þjóðirnar hafa til að mynda haldið fram.

Yfir 620 þúsund rohingjar hafa flúið frá Búrma til Bangladess vegna ofsókna frá því í ágúst. Samkvæmt samkomulagi milli ríkjanna tveggja verða þeir sendir aftur til Búrma. Þar munu þeir dvelja í bráðabirgðabúðum. Sameinuðu þjóðirnar segjast uggandi um aðbúnað fólksins eftir að því verður gert að snúa aftur. 

Flóttafólkið hefst nú við í einum stærstu flóttamannabúðum heims í hinu fátæka ríki Bangladess. Þar hefur það lýst ofsóknum, ofbeldi og einangrun sem það þurfti að þola í Búrma. Hermenn hafi nauðgað konum og stúlkum og brennt heilu  þorpin til grunna. 

Samkvæmt samkomulaginu á senda fólkið til baka innan tveggja mánaða. „Í byrjun verður það geymt í bráðabirgðaskýlum í takmarkaðan tíma,“ segir utanríkisráðherra Bangladess. 

Sameinuðu þjóðirnar óttast að sá aðbúnaður sem fólkið verði látið búa við sé ekki ásættanlegur. Tryggja þurfi öryggi áður en fólkið verði látið snúa til baka. 

Samkvæmt samkomulaginu verður flóttafólkið hvatt til að koma til baka af fúsum og frjálsum vilja. Hins vegar er ljóst að fólkið á ekki í nein hús að venda þar sem hermenn Búrma hafa brennt þorp þeirra mörg hver. Því verða þau, snúi þau aftur, að búa í bráðabirgðahúsnæði.    

Stjórnvöld í Búrma hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir þá meðferð sem her landsins beitir rohingja. Þeim hefur verið haldið innan vírgirtra svæða og sviptir ferðaferðafrelsi. Yfirvöld í Búrma segja nú að þeir muni hafa frelsi til ferðalaga innan Rakhine-héraðs í „samræmi við lög og reglur“.

Áhrifamiklir leiðtogar búddamunka í Búrma sem tilheyra hópi sem kallar sig Ma Ba Tha segja hættu steðja að hefðum þeirra og siðum. Sú hætta sé íslam. „Það er ekki rétt mynd dregin upp, þetta er ekki þjóðarmorð,“ segir einn þeirra í samtali við CNN. 

Her landsins neitar því einnig að hafa beitt rohingjana harðræði. Skýringin á átökum felist í árásum skæruliða úr röðum rohingja sem verið sé að reyna að brjóta á bak aftur. 

Sameinuðu þjóðirnar segja að það sem sé að gerast í Búrma sé skólabókadæmi um þjóðernishreinsanir.

Ma Ba Tha-hópurinn segir búddista landsins vera fórnarlömbin. „Okkar fólk er að svelta. Þeir yfirgáfu þorpin. Það er ekki hægt að lifa af ef þeir [rohingjarnir] verða áfram í þorpunum.“

Mikill meirihluti íbúa Búrma er búddistar. Rohingjar eru hins vegar múslimar og eru af mörgum álitnir ólöglegir innflytjendur í Búrma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert