Drápu 21 barn í árásinni

Faðir með tvö börn sín á heilsugæslustöð í Autur-Ghouta í …
Faðir með tvö börn sín á heilsugæslustöð í Autur-Ghouta í Sýrlandi eftir árás í héraðinu. AFP

Að minnsta kosti 53, þar af 21 barn, létust í loftárás Rússa í austurhluta Sýrlands í gær. Árásin var gerð á svæði sem enn er undir yfirráðum vígamanna Ríkis íslams í landinu en þeir hafa veriðhraktir brott af flestum öðum svæðum landsins.

Í gær var sagt að 34 hefðu látist í árásinni sem gerð var á fjölbýlishús í bænum Al-Shafah. Nú er ljóst að mun fleiri féllu að því er mannréttindasamtök sem starfa í landinu segja. „Dánartalan hækkaði þegar farið var að grafa í rústum hússins,“ segir talsmaður samtakanna Syrian Observatory for Human Rights í samtali við AFP-fréttastofuna.

Rússar hafa staðfest að sex herþotur hafi gert loftárásir á svæðinu en sögðu skotmörkin aðeins hafa tengst íverustöðum vígamanna.

Rússar eru einir helstu bandamenn sýrlensku stjórnarinnar í stríðinu í landinu. 

Friðarviðræður, sem Sameinuðu þjóðirnar leiða, hefjast að nýju í Genf í næstu viku en hingað til hafa þær reynst árangurslausar.

Árásir víða um landið

Í gær féllu einnig 23 í úthverfi höfuðborgar Sýrlands, Damaskus. Þá segja mannréttindasamtök að árásir hafi einnig verið gerðar í Austur-Ghouta héraði. Engar fregnir hafa borist af mannfalli í þeim árásum. Samtökin segja að frá því að sýrlenski herinn hóf enn eitt áhlaupið í héraðinu fyrir um tveimur vikum hafi 120 fallið.

Talsmenn Sameinuðu þjóðanna á vettvangi segja að matarskortur sé víða og að fólk hafi neyðst til að borða dýrafóður og jafnvel sorp. Ástandið í Austur-Ghouta er sérstaklega slæmt þar sem svæðið hefur verið einangrað lengi. Um 400 þúsund íbúar þess búa við mikinn skort.

Íbúar Austur-Ghouta búa við sérlega bág kjör og heilbrigðisþjónusta er …
Íbúar Austur-Ghouta búa við sérlega bág kjör og heilbrigðisþjónusta er í algjöru lágmarki. Árásir hafa verið tíðar síðustu daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka