Bosníu-Króatinn Slobodan Praljak, sem tók inn eitur er dómur var kveðinn upp yfir honum í stríðsglæpadómstólnum í Haag í morgun, er á lífi.
AFP-fréttastofan hefur þetta eftir starfsmanni réttarins. Sagði hann Praljak á lifi og verið sé að veita honum alla nauðsynlega læknisaðstoð.
Praljak var dæmdur í tuttugu ára fangelsi árið 2013 fyrir glæpi, m.a. morð í Austur-Mostar. Dómstólinn staðfesti þá niðurstöðu í dag. Eftir að niðurstaða dómsins var lesin upp í dag, en um lokaáfrýjun málsins var að ræða, sagði Praljak við dómarann: „Ég hef tekið eitur“ og hrópaði: „Ég er ekki glæpamaður“.
Í frétt BBC um málið var greint frá því að Praljak hafi sett hönd að munni og hallað höfðinu aftur og gleypt glas með einhverju, sem verjandi hans sagði vera eitur.
Dómarinn bað þegar í stað um að réttarhöldunum yrði frestað og að tjald yrði dregið fyrir svæðið þar sem Praljak stóð. Fréttamenn segja sjúkraliða hafa þust inn í dómsalinn eftir að öðrum var vísað þar út.