Réttarhöld við stríðsglæpadómstólinn í Haag tóku óvænta stefnu í dag er sakborningur tók eitur í dómssalnum eftir að dómur yfir honum var kveðinn upp.
Bosníu-Króatinn Slobodan Praljak er einn af sex fyrrverandi stjórnmálaleiðtogum og hershöfðingjum sem er fyrir dómi vegna áfrýjunar máls þeirra vegna stríðsglæpa í Bosníustríðinu. Praljak var hershöfðingi í her Króata í stríðinu á árabilinu 1992-1995. Hann er 72 ára.
Praljak var dæmdur í tuttugu ára fangelsi árið 2013 fyrir glæpi, m.a. morð í Austur-Mostar. Dómstólinn staðfesti þá niðurstöðu í dag. Eftir að niðurstaða dómsins var lesin upp í dag, en um lokaáfrýjun málsins var að ræða, sagði hann við dómarann: „Ég hef tekið eitur“ og hrópaði: „Ég er ekki glæpamaður“.
Í frétt BBC segir að Praljak hafi sett hönd að munni og hallað höfðinu aftur og gleypt glas með einhverju, sem verjandi hans segir að hafi verið eitur.
Dómarinn bað þegar í stað um að réttarhöldunum yrði frestað og að tjald yrði dregið fyrir svæðið þar semPraljak stóð.
Hershöfðinginn fyrrverandi var m.a. ákærður fyrir að fyrirskipa eyðileggingu brúar í Mostar í nóvember árið 1993 sem hafði að mati dómaranna gríðarlegar fyrir múslima á svæðinu.
Dómstólnum var komið á fót árið 1993 til að taka á glæpum í stríðinu í Júgóslavíu. 161 sakborningur var ákærður og 90 þeirra voru sakfelldir.
Í síðustu viku var kveðinn upp dómur yfir fyrrverandi hershöfðingja Bosníu-Serba, Ratko Mladić. Hann var sakfelldur fyrir þjóðarmorð og aðra glæpi.
Í dag áttu að fara fram síðustu réttarhöld stríðsglæpadómstólsins sem nú verður aflagður.