Bandarískir öldungadeildarþingmenn hafa samþykkt umfangsmikla löggjöf til skattalækkunar en litið er á málið sem pólitískan sigur fyrir ríkisstjórn Trumps Bandaríkjaforseta.
Repúblikanar sem vildu ekki samþykkja lögin í fyrstu atrennu lýstu yfir stuðningi í kjölfar breytinga sem voru gerðar á frumvarpinu.
Þetta er umfangsmesta breyting sem gerð hefur verið á skattkerfi Bandaríkjanna frá því á níunda áratugnum. Það var samþykkt þrátt fyrir að öldungadeildarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að nýja löggjöfin myndi auka fjárlagahallann sem nemur einni billjón Bandaríkjadala. Þetta kemur fram á vef BBC.
Trump vill sjá breytingar, sem koma fram í nýju löggjöfinni, koma til framkvæmda fyrir lok ársins.
Öldungadeildin verður nú að sameina nýju lögin við önnur sem fulltrúadeildin samþykkti í síðasta mánuði. Sameinað frumvarp verður síðan borið undir forsetann til undirritunar.
Demókratar segja að þessar breytingar verði aðeins þeim ríku til góðs sem og stórfyrirtækjum. Þá muni lögin auka verulega á fjárlagahallann. Þeir náðu hins vegar ekki að tryggja nægilega mörg atkvæði til að stöðva málið í þinginu. Alls samþykktu 52 frumvarpið á móti 48.