Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur dregið Bandaríkin út úr sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að bæta ástandið í málefnum flóttamanna og farandfólks. Stjórnin segir sáttmálann ekki í samræmi við stefnu þjóðarinnar.
Í september í fyrra samþykktu 193 meðlimir í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna einróma svokallaða New York-yfirlýsingu, sem var ekki bindandi, þar sem því var heitið að halda réttindum flóttamanna á lofti, hjálpa þeim að koma sér fyrir á nýjum stað og tryggja að þeir hafi aðgang að menntun og störfum.
„New York-yfirlýsingin hefur að geyma mörg atriði sem eru ekki í samræmi við stefnu Bandaríkjanna í málefnum innflytjenda og flóttamanna og stefnu ríkisstjórnar Trumps í innflytjendamálum. Þess vegna hefur Trump forseti ákveðið að Bandaríkin dragi sig út úr þátttöku í sáttmálanum en reynt verður að ná alþjóðlegri sátt um hann hjá Sameinuðu þjóðunum árið 2018,” sagði í yfirlýsingu Bandaríkjanna.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðuð þjóðunum, segir að Bandaríkin muni halda áfram að styðja við bakið á flóttamönnum og farandfólki víðs vegar um heiminn en ákvarðanir um innflytjendamál skuli alltaf taka eingöngu af Bandaríkjunum.
„Við munum ákveða hvernig er best að stjórna okkar landamærum og hverjir fá að koma inn í landið,” sagði hún.