Ferðabann Trumps dæmt lögmætt

Hæstiréttur Bandaríkjanna.
Hæstiréttur Bandaríkjanna. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu í dag að bandarískum stjórnvöldum væri heimilt að hrinda í framkvæmd endurskoðuðu ferðabanni ríkisborgara frá sex ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta. Ferðabannið var eitt af kosningaloforðum Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, en gengið hefur illa að innleiða það.

Fram kemur í frétt AFP að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi fengið málið til úrlausnar eftir að tveir dómstólar höfðu stöðvað framkvæmd ferðabannsins á meðan látið væri reyna á lögmæti þess og þá einkum hvort það stæðist stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Þriðja útgáfa ferðabannsins, sem nær til ríkisborgara Tsjads, Írans, Líbíu, Sómalíu, Sýrlands og Jemens, var kynnt til sögunnar í september og voru samstundis höfðuð mál þar sem efast var um lögmæti bannsins en Trump hefur ítrekað reynt að koma því í gegn.

Ríkisstjórn Trumps telur ferðabannið mikilvægt til þess að tryggja þjóðaröryggi Bandaríkjanna og draga úr líkunum á hryðjuverkum. Sjö dómarar Hæstaréttar Bandaríkjanna töldu bannið standast lög en tveir voru á annarri skoðun.

Ekki er þó loku fyrir það skotið að málið gæti aftur endaði á borði Hæstaréttar Bandaríkjanna en andstæðingar þess hafa ekki gefist upp á að fá ferðabannið dæmt ólögmætt. Fleiri mál eru í gangi í þeim efnum. Meðal annars fyrir dómstóli í Richmond í Virginíu-ríki.

Ferðabannið nær einnig til ríkisborgara Norður-Kóreu og ákveðinna háttsettra embættismanna frá Venesúela. Megináherslan er þó á löndin sex.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka