„Þessi ákvörðun forsetans á eftir að draga marga þunga dilka á eftir sér og það á mörgum á ólíkum sviðum,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sagnfræði við Williams College í Bandaríkjunum, í samtali við mbl.is um þá ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.
Frétt mbl.is: Segja „hlið helvítis“ hafa opnast
„Í fyrsta lagi er hún táknræn fyrir það að Bandaríkjamenn og þar með einnig Ísraelar hafa ekki lengur áhuga á að vinna eftir tveggja ríkja lausninni sem hefur verið ráðandi alla götur frá Oslóar samkomulaginu. Þetta er enn einn naglinn í líkkistu þess. Í öðru lagi á þetta eftir að auka hróður hægri afla í Ísrael og vænka hag Benjamins Netanyahu forsætisráðherra. Í þriðja lagi passar þetta vel við þá ímynd sem Trump vill halda á lofti, nefnilega að hann sé öðruvísi stjórnmálamaður og allt öðruvísi pólitíkus en forverar hans,“ segir Magnús. Meðal stuðningsmanna hans sé þetta mjög vinsæl ákvörðun.
„Hann metur það sem svo að hann hefur engu að tapa með þessari ákvöðrun. En væntanlega er forsetinn að ofmeta eigið ágæti og á sama tíma að vanmeta stórlega hvernig fólk muni bregðast við víða um heim. Hann vanmetur hversu umfangsmikil viðbrögðin munu verða. Það er erfitt að segja til um það nákvæmlega en þetta á eftir að virkja marga til aðgerða. Viðbrögðin munu ekki láta á sér standa. Afleiðingarnar gætu verið mjög alvarlegar. Sérstaklega verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Tyrklands, Írans, Hizbollah og Egyptalands. Þá er þetta mikið próf fyrir Muhammad Bin Salman, hinn nýja krónprins Sádi Arabíu,“ segir hann.
Frétt mbl.is: Segir Jerúsalem höfuðborg Ísraels
Spurður um tímasetningu ákvörðunnar segir Magnús: „Tímasetningin tengist að einhverju leyti því að Bandaríkjaforseti á að framlengja á sex mánaða fresti starfsleyfi sendiráðsins í Tel Aviv. Og það var komið að ákveðnum fresti hvað það varðar. En þar sem farið er að hitna í kolunum hvað varðar rannsóknir alríkislögreglunnar á Trump-stjórninni má ætla að tímasetningin sé einnig til komin til að þjappa stuðningsmönnum hans saman á meðan að sótt er að Trump úr mörgum áttum.“