Borgarstjóri London, Sadiq Khan, kallaði eftir því í dag að ríkisstjórn Bretlands, bæðist formlega afsökunar á fjöldamorðum sem framin voru á Indlandi árið 1919 þegar landið var enn bresk nýlenda. Þetta kemur fram í frétt AFP.
Rifjað er upp í fréttinni að breskir hermenn hafi skotið á óvopnaða mótmælendur í borginni Amritsar með þeim afleiðingum að 400 manns létu lífið, karlar, konur og börn, samkvæmt gögnum frá nýlendutímanum. Indverjar segja að hátt í eitt þúsund manns hafi látist.
Árið 2013 heimsótti þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, staðinn þar sem fjöldamorðin áttu sér stað. Sagði hann atburðinn mjög svívirðilegan en baðst hins vegar ekki afsökunar á honum.
Khan ritaði í gestabók minningarreits um fjöldamorðin að tímabært væri fyrir bresk stjórnvöld að biðjast afsökunar á fjöldamorðunum.