„Koss dauðans“ fyrir frið?

Allar líkur eru á að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman til aukafundar á morgun eftir að átta ríki af 15 aðildarríkjum ráðsins óskuðu eftir fundi til að ræða ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta að viðurkenna formlega Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja sendiráð Bandaríkjanna þangað.

Ákvörðun Trumps hefur vakið mikla reiði meðal flestra fyrir utan Ísraelsmanna og er óttast að þetta geti valdið gríðarlegri togstreitu, jafnvel hrundið af stað blóðugum átökum. 

Bogi Þór Arason skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer yfir viðbrögð heimsins og eins söguna á bak við innlimun borgarinnar á sínum tíma:

Sú ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta að viðurkenna formlega Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja sendiráð Bandaríkjanna þangað gæti valdið ólgu í Miðausturlöndum, leitt til nýrrar hrinu ofbeldis, grafið undan tilraunum Bandaríkjastjórnar til að ná friðarsamningum milli Ísraela og Palestínumanna og skaðað tengsl Bandaríkjanna við samstarfsríki þeirra í heimshlutanum. Þetta er mat embættismanna í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og stjórnvalda í mörgum öðrum löndum.

Trump ákvað að virða þessar viðvaranir að vettugi og efna loforð sem hann gaf í kosningabaráttunni í fyrra. Þar með vék hann frá stefnu sem bandarísk stjórnvöld hafa fylgt síðustu áratugi í deilu Ísraela og Palestínumanna um Jerúsalem sem gyðingar, kristnir menn og múslímar líta á sem helga borg. Hún hefur verið eitt af erfiðustu deilumálum Ísraela og araba og torveldað mjög friðarsamninga.

Stjórnvöld í Ísrael fögnuðu ákvörðun Trumps, sögðu hana sögulega, en fulltrúi Palestínumanna í Bretlandi lýsti henni sem „stríðsyfirlýsingu“ og „kossi dauðans“ fyrir friðarviðræður sem byggðust á tveggja ríkja lausninni svonefndu. Palestínumenn hafa krafist þess að Austur-Jerúsalem verði höfuðborg ríkis þeirra þegar fram líða stundir. Bandarísk stjórnvöld hafa fylgt þeirri stefnu að leysa eigi deiluna um Jerúsalem í friðarviðræðum, eins og kveðið er á um í samningi Ísraela og Palestínumanna frá árinu 1993.

Innlimunin brot á þjóðarétti

Ekkert ríki er með sendiráð í Jerúsalem núna. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 1947 áætlun um skiptingu Palestínu í tvö ríki, gyðinga og araba, og samkvæmt henni átti Jerúsalem, Betlehem og nálægir helgistaðir að vera undir stjórn alþjóðasamtakanna. Gyðingar samþykktu áætlunina um skiptinguna en arabaríki höfnuðu henni og hófu stríð gegn Ísrael eftir að ríkið var stofnað árið 1948. Þegar átökunum lauk ári síðar tilheyrði austurhluti borgarinnar Jórdaníu en vesturhlutinn Ísrael. Ísraelar hernámu austurhlutann í sex daga stríðinu 1967 og síðan hefur öll borgin verið undir stjórn Ísraels. Austurhlutinn var innlimaður í landið árið 1980 með lögum þar sem Jerúsalem var lýst sem „eilífri og óskiptri höfuðborg Ísraels“. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi innlimunina, sagði hana vera brot á þjóðarétti, og samtökin hafa aldrei viðurkennt hana.

Eftir innlimunina hafa borgarmörk Jerúsalem verið færð út með lögum sem samþykkt hafa verið á þingi Ísraels. Alls búa um 200.000 gyðingar á svæðum sem Ísraelar hafa lagt undir sig í austurhluta Jerúsalem. Sameinuðu þjóðirnar líta á landtökubyggðirnar sem brot á þjóðarétti en Ísraelar neita því. Með því að viðurkenna Jerúsalem formlega sem höfuðborg Ísraels gæti Trump styrkt Ísraela í deilunni um landtökubyggðirnar.

Fyrir innlimunina voru Holland og tólf ríki Rómönsku Ameríku með sendiráð í vesturhluta Jerúsalem en sendiráð Bandaríkjanna hefur alltaf verið í Tel Avív. Eftir innlimunina fluttu öll ríkin þrettán sendiráð sín til Tel Avív. Nokkur lönd, þeirra á meðal Bandaríkin, eru með ræðismannsskrifstofu í vesturhluta Jerúsalem.

 Kveðst styðja stofnun Palestínuríkis

Þing Bandaríkjanna samþykkti árið 1995 lög þar sem kveðið er á um að viðurkenna eigi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja eigi sendiráðið þangað. Bandaríkjaforseti fékk þó heimild til að fresta gildistöku ákvæðisins vegna öryggishagsmuna landsins og forverar Trumps hafa nýtt þessa heimild og frestað gildistöku ákvæðisins með hálfs árs millibili. Trump gerði það einnig í júní.

Forsetinn útskýrði ákvörðun sína í ræðu sem hann flutti í gærkvöldi. Hann sagði m.a. að leysa bæri deiluna um borgarmörk Jerúsalem í samningaviðræðum um framtíðarstöðu borgarinnar og að Bandaríkjastjórn styddi óbreytta stöðu Musterishæðarinnar, helgistaðar gyðinga, kristinna manna og múslíma. Hann lýsti því einnig yfir að hann styddi stofnun Palestínuríkis ef samkomulag næðist um það, en hann hafði áður neitað að gera það, að sögn The Wall Street Journal.

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að ákvörðun Trumps græfi undan tveggja ríkja lausninni og samræmdist ekki ályktunum Sameinuðu þjóðanna um að deilan um framtíðarstöðu Jerúsalem yrði leidd til lykta með samningum milli Ísraela og Palestínumanna.

Bandarískir embættismenn segja að með því að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels sé Trump að „viðurkenna veruleikann“. Þeir segja að það taki nokkur ár að flytja sendiráðið til Jerúsalem, því að velja þurfi lóð fyrir það, huga að öryggisráðstöfunum, hanna og fjarmagna bygginguna áður en framkvæmdirnar geti hafist.

Samningaumleitanir fyrir bí?

Margir leiðtogar annarra ríkja vöruðu við því að ákvörðun Trumps gæti valdið mikilli ólgu meðal múslíma í Miðausturlöndum og bandaríska utanríkisráðuneytið tók þær viðvaranir alvarlega. Starfsmönnum bandarískra sendiráða var sagt að vera viðbúnir mótmælum og bandarískum ríkisstarfsmönnum og fjölskyldum þeirra var bannað að ferðast til Jerúsalem og Vesturbakkans vegna hættu á að þau yrðu fyrir árásum.

Donald Trump lýsti sér sem afburðasnjöllum samningamanni í kosningabaráttunni og sagði þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september að hann væri að vinna að „alerfiðasta samningnum“, þ.e. friðarsamningi milli Ísraela og Palestínumanna til að binda enda á 70 ára erjur þeirra. Honum hefur verið lýst sem „samningi aldarinnar“.

„Ég tel að við séum í góðu færi – ef til vill betra en nokkru sinni fyrr,“ sagði Trump í ræðunni og kvaðst ætla að gera allt sem hann gæti til að tryggja slíkan samning.

Tengdasonur Trumps, Jared Kushner, og aðalsamningamaður forsetans, Jason Greenblatt, hafa stjórnað þessum samningaumleitunum. Hermt að krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, gegni lykilhlutverki í viðræðunum og Sádar leggi fast að Mahmoud Abbas, forseta heimastjórnar Palestínumanna, að fallast á nýja friðaráætlun. Lítið er vitað um nýju tillögurnar en sagt er að þær feli meðal annars í sér að Palestínumenn fái yfirráð yfir dreifðum svæðum á Vesturbakkanum, sem verði umlukin landsvæðum Ísraels, og einu úthverfi í Austur-Jerúsalem, Abu Dis.

Konungur Sádi-Arabíu var á meðal leiðtoga arabaríkja sem fordæmdu ákvörðun Trumps. Ráðgjafi Abbas, Nabil Shaath, sagði að yfirlýsing Trumps í gær myndi binda enda á draum hans um „samning aldarinnar“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert