„Breytingar eru erfiðar“

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. AFP

Bandarísk stjórnvöld styðja sem fyrr tilraunir til þess að tryggja friðsamlega sambúð Ísraela og Palestínumanna. Þetta sagði Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, í umræðum í öryggisráði SÞ í dag þar sem rætt var um ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á miðvikudaginn að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

„Leyfið mér að fullvissa ykkur um það enn á ný að forsetinn og ríkisstjórn hans styðja sem fyrr friðarferlið,“ sagði Haley á neyðarfundinum sem boðað var til vegna málsins. Haley sagði að Trump hefði einfaldlega með ákvörðun sinni verið að viðurkenna raunveruleikann enda væri aðsetur ríkisstjórnar Ísraels og þing landsins í Jerúsalem.

Haley rifjaði einnig upp orð Trumps um að ákvörðun hans hefði engin áhrif á það með hvaða hætti Ísraelar og Palestínumenn ættu mögulega eftir að semja um mörk innan borgarinnar helgu en Palestínumenn vilja að austurhluti hennar verði höfuðborg ríkis þeirra í framtíðinni.

Haley sagðist skilja áhyggjur vegna málsins og bætti við: „Breytingar eru erfiðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka