„Dustin hvíslaði: „Hærra, hærra,“ og reyndi þannig að fá mig til að færa hendur mínar upp fætur hans í átt að kynfærum hans. Ég gerði það ekki.“
Svona lýsir leikkonan Kathryn Rossetter meðal annars kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir af hendi bandaríska leikarans Dustin Hoffman. Rossetter greindi frá reynslu sinni í pistli sem hún birtir í gestadálki í útgáfu The Hollywodd Reporter í dag.
Rossetter og Hoffman unnu saman á 9. áratugnum við uppsetningu á leikritinu Sölumaður deyr sem sýnt var á Broadway. Rossetter er önnur konan sem sakar Hoffman um áreitni. Í síðasta mánuði steig leikkonan Anna Graham Hunter fram og sagði frá reynslu sinni af því að vinna með Hoffman við tökur á sjónvarpsmynd á sama leikverki árið 1985. Hunter var þá 17 ára gömul og vann sem nemi við tökur á Sölumaður deyr. Hoffman, sem er áttræður í dag, káfaði á henni og talaði á óviðeigandi hátt um kynlíf við hana.
Frétt mbl.is: „Tvö harðsoðin egg og léttsoðinn sníp“
„Þetta byrjaði allt saman vel,“ skrifar Rossetter. Hoffman hafði aðstoðað hana við að landa hlutverkinu, sem var hennar fyrsta á Broadway. „Hann kynnti mig meira að segja fyrir eiginkonu sinni.“
Hlutirnir voru þó fljótir að breytast. „Fljótt varð þetta skelfileg, siðspillt og móðgandi reynsla af hendi (bókstaflega) eins af átrúnaðargoðum mínum,“ skrifar Rossetter.
Hún lýsir því einnig hvernig Hoffman hafi troðið höndum sínum innan undir undirkjól sem hún klæddist þegar þau léku saman í uppfærslu á söngleiknum Chicago. Þetta gerði hann nánast á hverri einustu sýningu. „Hann hélt þessu áfram og varð aðgangsharðari með hverju skiptinu. Kvöld eftir kvöld fór ég heim og grét,“ skrifar Rossetter.
„Hvernig getur maður sem berst fyrir því að ég fái hlutverk, hrósar mér fyrir störf mín, kemur að því að hefja feril minn og deilir með mér visku sinni sem leikari, verið sá sami og misnotar vald sitt með kynferðislegum hætti?“ spyr Rossetter.
Hún veltir því fyrir sér hvort sökin sé hennar. „Gerði ég eitthvað? Var sökin mín?“
Rossetter lýsir fjölmörgum atvikum þar sem Hoffman káfaði á henni. Þá bað hann hana ítrekað um fótanudd. „Dustin hvíslaði: „Hærra, hærra,“ og reyndi þannig að fá mig til að færa hendur mínar upp fætur hans í átt að kynfærum hans. Ég gerði það ekki.“
Hún íhugaði að tilkynna Hoffman til samtaka leikara en þeir sem hún ræddi áreitnina við töldu hana af því þar sem hún myndi líklega missa vinnuna og þar með vonir sínar um farsælan feril.
Hoffman, sem er líklega þekktastur fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum Tootsie, Kramer vs. Kramer, Rain Man og All the Presidents Men, segir að hann muni ekki eftir þessum atvikum sem eiga að hafa átt sér stað fyrir 30 árum.
Hann segir einnig að hann trúi ekki að hann hafi valdið neinum skaða og að þau samtöl sem hann hafi átt á tökustað á þessum tíma hafi verið dæmigerð „fjölskyldusamtöl“.
Staðreyndin er þó sú að nafn Hoffman hefur nú tvívegis komið upp í bylgju ásakana um kynferðislega áreitni, ofbeldi og nauðganir af hálfu þekktra einstaklinga í kvikmyndaborginni í kjölfar þess að fjöldi kvenna steig fram og greindi frá reynslu sinni af samstarfi við kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein.