Á hverju einasta kvöldi, áður en hann fór að sofa, snéri Charles Jenkins, liðhlaupi úr bandaríska hernum, sér að Hitomi Soga, konunni sem stjórnvöld í Norður-Kóreu höfðu neytt hann til að kvænast, og kyssti hana þrisvar góða nótt.
„Oyasumi“ sagði hann við hana á móðurmáli hennar, japönsku. „Goodnight“ svaraði hún á ensku, tungumálinu sem hann lærði þar sem hann ólst upp í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Góða nótt þýða bæði orðin.
„Þetta gerðum við til að gleyma því aldrei hver við værum og hvaðan við kæmum,“ skrifaði Jenkis í æviminningum sínum.
Að baki sambands þeirra var skrýtin og sorgleg saga af þvingunum og ofbeldi, en þarna var líka ástarsaga.
Sem fangar í landi einræðis sem þekkt er fyrir hungursneyð og vinnubúðir, voru þau leidd saman og gert að ganga í hjónaband. Fjallað var um sögu þeirra á vef BBC.
Jenkins, sem lést síðastliðinn mánudag 77 ára að aldri, ráfaði yfir landamærin til Norður-Kóreu á janúarkvöldi árið 1965 algjörlega ómeðvitaður um hvað beið hans. Hann var 24 ára, drukkinn og bitur, eiginlega hálf þunglyndur liðþjálfi sem hafði verið staðsettur á bækistöð við landamærin Suður-Kóreu megin. Hann óttaðist að hann yrði skotinn eða að hann yrði sendur út í opinn dauðan í Víetnam.
Hann vissi að það var áhættusamt að hlaupast undan skyldum sínum sem hermaður, en hann hafði hugmyndir um að hann gæti óskað eftir hæli í rússneska sendiráðinu og komist heim með fangaskiptum. Í æviminningum sínum áratugum síðar skrifaði hann: „Ég gerði mér ekki grein fyrir því að landið þar sem ég ætlaði mér að sækja tímabundið um hæli var í raun eitt allsherjar fangelsi; þeir sem fóru þangað inn komust yfirleitt ekki út aftur.“
Jenkins var handtekinn skömmu eftir að hann kom yfir landamærin og fjögurra áratuga þrekraun hófst. Honum var fyrstu árin haldið föngnum í litlu herbergi ásamt þremur öðrum Bandaríkjamönnum. Voru þeir neyddir til að læra utan að fræði Kim Il-sung, leiðtoga Norður-Kóreu, tíu tíma á dag og mátti þola reglulegar barsmíðar.
Árið 1972 fengu þeir loks hver sitt eigið heimili og voru skilgreindir sem norðurkóreskir þegnar. Þeir voru þó enn pyntaðir og fylgst var með hverju einasta fótspori þeirra.
Þeim var gert að kenna ensku í herskóla, en Jenkis var þó að lokum rekinn vegna Suðurríkja hreimsins. Svo voru þeir látnir leika vonda Bandaríkjamenn í áróðursmyndbönum og urðu fyrir vikið stjörnur í landinu.
Það sem kom kannski mest á óvart var að mönnunum var skipað að kvænast kvenkyns föngum. Allar voru konurnar erlendar og hafði verið rænt fá heimalandi sínu.
Jenkins var ekki í nokkrum vafa um ástæður þessa ráðhags. Stjórnvöld í Norður-Kóreu vildu að mennirnir myndu fjölga sér og að börn þeirra, sem hefðu vestrænt yfirbragð, yrðu þjálfuð sem njósnarar og svo send úr landi til starfa.
Hitomi Soga var 19 ára og starfaði sem hjúkrunarfræðingur þegar henni var rænt frá eyjunni Sado við vesturströnd Japans árið 1978. Hennar hlutverk var að kenna norðurkóreskum njósnurum japönsku og að haga sér eins og Japanir. Uppruni hennar átti síðar eftir að gefa eiginmanni hennar framtíð sem hann var löngu búinn að gefa upp á bátinn.
Þegar parið gekk í hjónaband árið 1980 hafði Jenkins eytt 15 árum einn í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. Hann sagði síðar í viðtali við CBS að honum hefði nægt að líta á tilvonandi konu sína einu sinni. „Ég ætlaði aldrei að missa hana.“
Nýgiftu hjónin áttu þó ekkert sameiginlegt nema það eitt að hata Norður-Kóreu. Það leið þó ekki á löngu áður en þau urðu ástfangin.
Í 22 ár nutu hjónin samvista við hvort annað í Norður-Kóreu. Þau voru hamingjusöm saman og þakklát fyrir hvort annað. Eignuðust tvær dætur, Mika og Brinda.
Árið 2002 gerðist það hins vegar að Kim Jong-Il, þáverandi leiðtogi Norður-Kóreu, viðurkenndi að þrettán japönskum ríkisborgurum hefði verið rænt á áttunda og níunda áratugnum. Átta voru sagðar látnir en samþykkt var að þeir sem enn væru á lífi yrðu sendir í tíu daga heimsókn til Japan. Hitomi Soga var ein þeirra, en eiginmaður hennar fékk ekki að fara með.
Fólkinu var að sjálfsögðu tekið fagnandi í Japan og ekkert þeirra snéri aftur til Norður-Kóreu. Jenkins og dætur hans urðu hins vegar eftir. Hann vissi að fyrir liðhlaup úr bandaríska hernum gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi heima í Bandaríkjunum og hann vissi líka að ef hann reyndi að komast til eiginkonu sinnar í Japan þá myndu Bandaríkjamenn handtaka hann.
Tveimur árum eftir að konan hans snéri aftur til Japans þoldi hann ekki við lengur og flúði með dætur sínar til Indónesíu þar sem hann átti það ekki á hættu að verða framseldur til Bandaríkjanna. Það var svo eftir hvatningu frá þáverandi forsætisráðherra Japans að hann ákvað að taka áhættuna. Hann var tilbúinn að mæta fyrir herrétt og deyja í fangelsi, bara ef hann næði að sameina fjölskyldu sína um stund.
Það var svo í september árið 2004 að liðhlaupinn yfirgaf spítala í Tókýó og stefndi í átt að herstöð Bandaríkjanna mann í grenndinni. Hann var 64 ára en leit út fyrir að vera að minnsta kosti tíu árum eldri og gekk með staf. Hann heilsaði að hermannasið og kynnti sig: „Ég er Jenkins liðþjálfi og ætla að gefa mig fram.“
Jenkins sat í fangelsi í 25 daga af þeim 30 sem honum var gert að sæta. Hann hafði lýst sig sekan um liðhlaup og að hafa aðstoðað óvininn, með því að kenna ensku í Norður-Kóreu. Honum var sleppt vegna góðrar hegðunar. Þá deildi hann allri sinni vitneskju af Norður-Kóreu.
Jenkins brotnaði saman þegar honum var sleppt. Hann grét og sagði: „Ég gerði mikil mistök, en að koma dætrum mínum út úr landinu var það eina sem ég hef gert rétt.“
Allt til dauðadags var Jenkins sannfærður um að stjórnvöld í Norður-Kóreu myndu ná til dætra hans. Hann gaf þeim skýr fyrirmæli um að stöðva aldrei fyrir umferðarlögreglunni í Japan, því hann taldi að þeir gætu verið útsendarar frá Norður-Kóreu.
Jenkins tileinkaði eiginkonu sinni æviminningarnar og sagði hana hafa bjargað lífi sínu. Það var engin spurning, hún var ástæða þess að hann fékk að deyja sem frjáls maður.