Arthur Collins, 24 ára, hefur verið dæmdur í 25 ára fangelsi vegna sýruárásar sem framkvæmd var í næturklúbbi í London í apríl. Nokkrir voru fluttir á sjúkrahús eftir árásina og þar af misstu þrír tímabundið sjón á öðru auga. Aðrir hlutu brunasár um líkamann.
Collins var ákærður fyrir að sprauta ætandi efni yfir hóp fólks á næturklúbbi. Mörg fórnarlambanna sögðu fyrir dómi hvernig árásin hefði haft slæm áhrif á líf þeirra.
Dómari lýsti því að árásin hefði verið „viljandi og úthugsuð“. Hann bætti því við að Collins sæi augljóslega ekki eftir árásinni og því var hann dæmdur í 20 ára fangelsi en fimm ár eru skilorðsbundin.
Collins er fyrrverandi unnusti sjónvarpsstjörnunnar Ferne McCann. Fyrir dómi var því lýst að hann hefði einu sinni hótað móður McCann svipaðri árás. Collins var aðvaraður eftir að hafa hringt til fyrrverandi tengdamóður sinnar um miðja nótt og hótað henni sýruárás og nauðgun. Collins baðst afsökunar og sagðist hafa verið mjög pirraður þegar hann hringdi.