Fulltrúi mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna segist „virkilega miður sín“ vegna dráps ísraelska hersins á Ibrahim Abu Thurayeh og fer fram á sjálfstæða og hlutlausa rannsókn á málinu. Ibrahim var 29 ára gamall Palestínumaður sem var í hjólastól sökum þess að hann missti báða fætur í árás Ísraela árið 2008.
Ibrahim var einn þeirra fimm Palestínumanna sem voru drepnir á föstudag við mótmæli vegna ákvörðunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Ísraelski herinn segist ekki hafa skotið Ibrahim vísvitandi og ekki séu nein merki um að „siðferðileg eða fagleg mistök“ hafi átt sér stað.
Ibrahim var einn af hundruðum manna sem tóku þátt í mótmælagöngu í átt að girðingu sem skilur að Ísrael og Gasaströndina þann 15. desember.
Zeid Ra'ad Al Hussein, skrifstofustjóri mannréttindaskrifstofu SÞ, segir allt benda til þess að ísraelski herinn hafi beitt óhóflegu valdi gegn Ibrahim Abu Thurayeh í aðgerðum sínum.
„Að því er blasir við okkur þá er ekkert sem bendir til þess að yfirgnæfandi ógn hafi stafað af Ibrahim Abu Thurayeh þegar hann var drepinn. Vegna alvarlegrar fötlunar hans, sem hlýtur að hafa verið ljós þeim sem skutu hann, er dráp hans óskiljanlegt – sannarlega átakanlegt og tilefnislaus athöfn.“