Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, fór í fyrstu opinberu heimsókn Breta til Rússlands í fimm ár í dag. Hann hitti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Undanfarið hafa samskipti landanna ekki verið upp á sitt besta. Heimsókn Johnson til Rússlands hefur ítrekað verið frestað en upphaflega var hún fyrirhuguð í apríl.
„Samskiptin hafa verið erfið en við viljum vinna saman að ýmsum málum, Sergei, og við viljum vinna að því að bæta þau í framtíðinni,“ sagði hann við Lavrov í upphafi viðræðnanna og bætti við: „Okkur ber skylda til að vinna saman að friði og öryggi.“
Johnson sagðist trúa því að hægt verði að finna góðan samstarfsflöt á málum sem þjóðirnar hafa áhuga á og vísaði til ástandins í Íran, Norður-Kóreu og Sýrlandi.
Lavrov sagðist binda vonir við að fundur þeirra myndi leiða til „raunhæfra næstu skrefa“ sem myndu hjálpa við að efla tengslin. „Það er ekkert leyndarmál að samband okkar hefur aldrei verið verra,“ sagði Lavrov.
Flestir eru sammála þessum orðum Lavrov og sagði James Robbins, sérfræðingur breska ríkisútvarpsins í alþjóðlegum samskiptum, að samskipti landanna tveggja væru „upp á sitt versta“.
Ferðin er farin skömmu eftir að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sakaði Rússa um að „grafa undan frjálsum samfélögum“.
Í frétt Independent er greint frá því að þessi opinbera ferð til Rússlands er farin seint á árinu svo fjölmiðlar séu síður í stakk búnir til að fjalla um ferðina, áhrif og afleiðingar þar sem flestir eru uppteknir af jólahátíðinni sem er að ganga í garð.