Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar Katalóníu og leiðtogi sjálfstæðissinna, segir að úrslit kosninga til héraðsþingsins í Katalóníu séu sigur fyrir „lýðveldið Katalóníu“ og að spænska ríkið hafi tapað. „Þetta eru úrslit sem enginn getur véfengt,“ sagði Puigdemont í sjónvarpsávarpi frá Belgíu í gær en þangað flúði hann eftir að hafa einhliða lýst yfir sjálfstæði Katalóníu í andstöðu við spænsk stjórnvöld fyrr í vetur.
Þír flokkar sjálfstæðissinna í Katalóníu fengu nauman meirihluta í kosningum til héraðsþingsins sem fram fóru í gær eða 70 þingsæti af 135. Borgaraflokkurinn, sem vill að Katalónía verði áfram hluti af Spáni, hafði hlotið flest atkvæði eða 25,3% og þar með 37 þingsæti þegar langflest atkvæði höfðu verið talin. Inés Arrimadas, leiðtogi Borgaraflokksins sagði það áskorun að mynda stjórn „en við munum reyna“.
Kosningaþátttaka var 80% og hefur aldrei verið meiri.
Sjálfstæðissinnar sem fengu einnig meirihluta í síðustu kosningum, lýstu einhliða yfir sjálfstæði Katalóníu í lok október eftir þjóðaratkvæðagreiðslu sem spænsk yfirvöld sögðu ólöglega. Samkvæmt niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar vildu 90% kjósenda að Katalónía yrði sjálfstætt ríki. Þátttaka var hins vegar léleg eða innan við 50%. Engu að síður lýsti Puigdemont yfir sjálfstæði Katalóníu.
Stjórnmálaskýrendur telja að samanlagður sigur sjálfstæðisflokkanna þýði að nú sé boltinn aftur hjá spænsku ríkisstjórninni. Þrýstingur á sjálfstæði sé enn til staðar, miðað við þessa niðurstöðu.
Alls óvíst er hvort Puigdemont, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu, verður aftur forseti heimastjórnarinnar. Staða hans er flókin því komi hann aftur til Spánar verði hann að öllum líkindum handtekinn.