Giftust til að komast hjá erfðaskatti

Mennirnir giftu sig í gær í Dublin á Írlandi, en …
Mennirnir giftu sig í gær í Dublin á Írlandi, en þeir eru báðir gagnkynhneigðir. Þeir vildu hins vegar komast hjá erfðaskatti. AFP

Tveir gagnkynhneigðir karlmenn á Írlandi gengu í hjónaband á föstudaginn, en tilgangurinn var fyrst og fremst að komast hjá því að greiða erfðaskatt. Þeir Matt Murphy, sem er 85 ára, og Michael O‘Sullivan, sem er 58 ára, hafa verið vinir síðustu 30 ár, en undanfarið hefur O‘Sullivan veitt Murphy aðhlynningu þar sem heilsu hans hefur hrakað.

Í Irish Times er greint frá því að Murphy hafi boðið O‘Sullivan að búa með sér eftir að O‘Sullivan missti íbúðina sína í fjármálahruninu sem hafði mikil áhrif í Írlandi. Hefur hann síðan aðstoðað Murphy eftir því sem aldurinn færist yfir.

Sagðist Murphy ekki geta greitt O‘Sullivan fyrir aðstoðina í gegnum árin nema með því að erfa hann að húsinu sínu. Það hefði aftur á móti þýtt um 50 þúsund evru erfðaskattur sem O‘Sullivan sá ekki fram á að geta greitt nema með því að selja húsið. Vinur þeirra ræddi nýlega við Murphy yfir kollu af bjór þegar sá grínaðist með að kannski ættu þeir Murphy og O‘Sullivan að giftast og koma þannig í veg fyrir skattinn.

O‘Sullivan segir að Murphy hafi nokkru síðar snúið sér að honum og spurt hvort hann vildi giftast sér og það hafi ekki staðið á honum að svara því játandi.

O‘Sullivan á þrjú uppkomin börn og hefur áður verið giftur. Murphy hefur hins vegar aldrei verið giftur. Hjónabönd samkynhneigðra voru lögleidd fyrir tveimur árum á Írlandi.

Greint var frá áformum þeirra félaga þegar Murphy hringdi daglegan útvarpsþátt á RTÉ útvarpsrásinni í síðustu viku og upplýsti þáttastjórnandann um hugmyndir þeirra. Síðar staðfesti dómsmálaráðherra Írlands við Irish Times að gifting mannanna tveggja væri fullkomlega lögleg og nú í gær var komið að stóra deginum.

Murphy söng meðal annars lagið Let the world go by eftir Willie Nelson og O‘Sullivan flutti ræðu þar sem hann minntist á hversu góðhjartaður Murphy væri. Fimm voru viðstaddir athöfnina fyrir utan brúðgumana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert