Yfir 15 þúsund Rússar hafa lýst yfir stuðningi við framboð Alexei Navalní í embætti forseta Rússlands en talið er að hann sé sá eini sem mögulega geti haft betur gegn Vladimír Pútín í forsetakosningum í Rússlandi í mars.
Þúsundir stuðningsmanna Navalní komu saman víða í Rússlandi í dag til þess að lýsa yfir stuðningi við andófsmanninn.
Forsetakosningar fara fram í Rússlandi 18. mars og hefur Pútín þegar tilkynnt um að hann muni sækjast eftir endurkjöri.
Alexei Navalní er harður gagnrýnandi Vladimírs Pútíns forseta og hefur ljóstrað upp um ýmis spillingarmál innan rússneska stjórnkerfisins í gegnum tíðina. Navalní er 41 árs að aldri og lögfræðingur að mennt. Hann komst fyrst í heimsfréttirnar fyrir það að standa fyrir mótmælafundum árið 2011 og 2012 gegn endurkomu Pútíns í Kreml. Navalní hlaut næst flest atkvæði í kosningu borgarstjóra Moskvu árið 2012.
Navalní má hins vegar ekki bjóða sig fram vegna dóma sem hann hefur hlotið í gegnum tíðina. Pútín, sem nefnir Navalní aldrei á nafn, segir að stjórnarandstaðan sé að reyna að fremja valdarán en það muni ekki takast.
Þrátt fyrir að vera sakaður um spillingu, að bera ábyrgð á hræðilegri heilbrigðisþjónustu þá benda skoðanakannanir til þess að Pútín fái 80% atkvæða í kosningunum.
Pútín, sem er 65 ára að aldri, mun, ef hann verður endurkjörinn, verða sá leiðtogi Rússlands sem hefur setið lengst á valdastóli síðan Jósep Stalín var og hét. Um fjóra kjörtímabilið er að ræða og er það til sex ára.