Trump: Þurfum hlýnun jarðar

Donald Trump heimsótti slökkvistöð í Flórída.
Donald Trump heimsótti slökkvistöð í Flórída. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem nú er í jólafríi á Flórída, gaf til kynna í færslu á Twitter í nótt að loftslagsbreytingar væru mýta og benti máli sínu til stuðnings á að kaldara væri nú á austurströnd Bandaríkjanna en nokkru sinni fyrr. Skrifaði Trump að kannski væri hægt að nota eitthvað af þessari hlýnun jarðar til að hita svæðið. 

Staðreyndirnar tala reyndar sínu máli þvert á það sem forsetinn er að gefa í skyn. Hitastig á jörðinni hefur aldrei mælst meira en í fyrra og vísbendingar eru um að árið 2017 muni slá það met. Gerist það verður árið í ár það fjórða í röðinni til að vera heitara en árið á undan.

Fjallað er um færslu Trumps í frétt á CNN og þar kemur fram að blaðamaður hafi spurt Hvíta húsið hvort tíst forsetans væri til marks um stefnu ríkisstjórnarinnar. Ekki höfðu fengist svör við þeirri fyrirspurn en í frétt CNN er tekið fram að svörin hafi hingað til verið á þá leið að líta beri á tíst Trumps sem opinbera stefnu yfirvalda. 
Trump hefur ítrekað reynt að gera lítið úr loftslagsbreytingum af mannavöldum. „Það er ískalt og það snjóar í New York. Við þurfum hlýnun jarðar,“ skrifaði hann m.a. á Twitter árið 2012. Ári síðar skrifaði hann að mjög kalt væri í Los Angeles og að loftlagsbreytingar væru dýrt bull.
Sérfræðingar sem CNN hefur rætt við um málið segja að svo virðist sem forsetinn átti sig ekki á muninum á veðri frá degi til dags og svo loftslagi eða veðurfari. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka