Tók titilinn af Karjakin eftir tap í fyrra

Carlsen og Karjakin takast á við taflborðið í New York …
Carlsen og Karjakin takast á við taflborðið í New York 23. nóvember 2016. Carlsen varð heimsmeistari í Sádi-Arabíu í dag þrátt fyrir að hafa verið í 20. sæti á mótinu eftir gærdaginn. AFP

Norski skákmeistarinn Magnus Carlsen fór í dag með sigur af hólmi á heimsmeistaramótinu í leifturskák í Riyadh í Sádi-Arabíu þegar hann sigraði Rússann Sergej Karjakin með 16 vinningum gegn fjórtán og hálfum. Viðsnúningurinn í dag var gríðarlegur þar sem Carlsen sat í 20. sæti á mótinu eftir gærdaginn. Helsti skáksérfræðingur norska ríkisútvarpsins NRK sagði í viðtali við mbl.is að svo sannarlega gæti allt gerst í leifturskák.

„Í dag tókst honum að finna sitt form. Leifturskák byggist eingöngu á innsæi og Carlsen hefur heimsins sterkasta innsæi,“ segir Atle Grønn, sem auk þess að vera alþjóðlegur meistari í skák og skáksérfræðingur norska ríkisútvarpsins er einnig prófessor í rússnesku við Háskólann í Ósló. Grønn segir innsæið vera allt í leifturskák, „um leið og menn eru farnir að þurfa að reikna leiki fram í tímann í leifturskák er þetta bara búið,“ útskýrði Grønn þegar mbl.is náði tali af honum og sagðist að sjálfsögðu vera að fá sér öl í góðra manna hópi til að fagna úrslitum dagsins. En hvað táknar þessi sigur fyrir Carlsen og norska skák?

Skiptir gríðarlegu máli fyrir Carlsen

„Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir Carlsen sem hefur átt frekar lélegt ár í skákinni núna og það að norskir fjölmiðlar séu tilbúnir að senda beint frá þessu móti alla dagana auk þess sem hann tekur titilinn af Karjakin með hreinu rothöggi hefur úrslitaþýðingu,“ segir meistarinn alþjóðlegi og bætir því við að Carlsen hafi lagt mikla áherslu á leifturskák á sínum ferli frekar en hefðbundna skák og ætli sér að breyta leifturskákinni og hefja hana til æðri vegar.

Fyrir þá sem ekki þekkja til gengur skákafbrigðið leifturskák út á að hvor keppandi í skákinni hefur þrjár til tíu mínútur til að ljúka leiknum svo þar hugsa menn sig ekki um í marga klukkutíma, jafnvel marga daga eins og þekkt varð í einvígi Robert Fischer og Boris Spasski í Laugardalshöllinni í Reykjavík sumarið 1972. Í leifturskák gildir að vera snöggur á klukkunni og standast pressuna sem tímahrakið myndar.

„Öll norska þjóðin fylgist með manninum og þetta er mjög stórt fyrir skákheiminn í Noregi,“ segir Grønn. Inntur eftir því hvað taki við hjá meistaranum unga, en þeir keppinautarnir í dag, Carlsen og Karjakin, eru báðir fæddir árið 1990, segir Grønn að næsta stórmót sé Tata Steel Chess Tournament í Hollandi í janúar en það mót hefur verið kallað „Wimbledon taflíþróttarinnar“ eftir hinu árlega risamóti í tennis.

Þar næst segir Grønn Carlsen munu keppa á Fischer Random-mótinu sem fram fer í Noregi í febrúar en mót þetta mun byggja á skákafbrigði sem Robert heitinn Fischer kynnti á móti í Buenos Aires í Argentínu árið 1996 og baðst blaðamaður kurteislega undan nákvæmri útfærslu á því þegar Grønn bjó sig augljóslega undir að hefja langan fyrirlestur í símann en upphafið hljómaði nógu flókið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka