Hassan Rouhani, forseti Írans, segir stjórnvöld landsins þurfa að útvega „rými til gagnrýni“. Reynir hann nú að binda endi á óeirðir sem varað hafa í landinu í nokkra daga og varar mótmælendur við því að ofbeldi sé ólíðandi.
Hundruð mótmælenda flykktust niður götur höfuðborgarinnar Teheran og annarra borga í dag, á fjórða degi mótmælanna. Fregnir herma að tvö hundruð manns hafi verið handteknir í nótt í höfuðborginni. Yfirvöld hafa þá staðfest að tveir hefðu látist í bænum Dorud í vesturhluta landsins.
Stjórnvöld hafa meðal annars tekið til þess ráðs að loka fyrir aðgengi borgaranna að myndadeilingarforritum og skilaboðaskjóðum í farsímum.
Með ummælunum rýfur forsetinn þögn sína um mótmælin sem eru þau stærstu í landinu síðan árið 2009. Byrjuðu þau sem mótmæli gegn efnahagsástandinu í borginni Mashhad á fimmtudag en þróuðust snögglega yfir í mótmæli gegn íslömsku stjórninni í heild sinni.
Þúsundir hafa þannig lagt leið sína um götur landsins og hrópað dauðaóskir til handa forsetanum, sem þau nefna einræðisherra.
„Almenningi er algjörlega frjálst að láta í ljós gagnrýni sína og jafnvel mótmæla,“ mun Rouhani hafa tjáð viðstöddum á ríkisstjórnarfundi samkvæmt ríkismiðlinum.
„En gagnrýni er annað en ofbeldi og eyðilegging almenningseigna.“