Spurt og svarað um mótmælin í Íran

Mótmælandi í reykjarmekki við háskólann í Teheran eftir að öryggissveitir …
Mótmælandi í reykjarmekki við háskólann í Teheran eftir að öryggissveitir beittu áragasi. AFP

Alda mótmæla hefur breiðst út í Íran síðustu daga. Mótmælin verða sífellt ofbeldisfyllri en stjórnmálaskýrendur telja að leiðtoga vanti í hópinn sem og pólitískan stuðning og því sé óvíst að þau nái tilætluðum árangri.

Hér að neðan verður leitast við að svara nokkrum spurningum varðandi mótmælin og þróun þeirra.

 Geta mótmælin haldið áfram?

„Eftir því sem mótmælin verða ofbeldisfyllri þeim mun fyrr mun líða að endalokum þeirra, hvort sem það eru mótmælendur eða óeirðarlögreglan sem beitir ofbeldinu,“ segir Adnan Tabatabai, íranskur stjórnmálasérfræðingur og forstjóri þýska ráðgjafafyrirtækisins CARPO.

Í dag hefur komið fram í fréttum að tveir liðsmenn öryggissveita hafi verið skotnir til bana og að sex mótmælendur hafi verið drepnir er þeir reyndu að ryðjast í gegnum varnarlínur lögreglunnar í Isfahan-héraði. Tabatabai segir að átök verði notuð til að réttlæta áhlaup lögreglu og hers. Ofbeldið muni að auki verða til þess að samstaða meðal þjóðarinnar minnkar. 

Æðstiklerur Írans, Ayatollah Ali Khamenei.
Æðstiklerur Írans, Ayatollah Ali Khamenei. AFP

Ellie Geranmayeh, sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum hjá Evrópuráðinu, segir að skilaboð Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerks Írans, um að erlendum óvinum sé að kenna um ólguna í landinu, sé til marks um að hart verði tekið á mótmælendum.

„Ég efast um að mótmælin verði stjórnlaus fyrir ríkisstjórnina eins og einhverjir bandarískir sérfræðingar eru að spá,“ segir Geranmayeh. „Æðstiklerkurinn ætlar ekki að gefa neitt svigrúm til frekari mótmæla. Þegar dánartalan hækkar þá held ég að uppþot í smærri bæjum verði brotin á bak aftur.“

Tabatabai segir þó erfitt að spá fyrir um framhaldið. Dráp á einhverjum sem gerður verður að tákngervingi mótmælanna gæti til dæmis breytt gangi mála. 

Hvernig er mótmælin nú ólík þeim sem urðu árið 2009?

Fjöldamótmæli brutust út á götum Teheran árið 2009 í kjölfar forsetakosninga er Mahmoud Ahmadinejad var endurkjörinn. Taldi fólk að kosningasvindl hefði átt sér stað. Þá fóru þeir sem töpuðu í forsetakosningunum og boðað höfðu pólitískar umbætur fyrir mótmælunum sem kölluð voru „græna byltingin“. Mótmælin stóðu ekki lengur því öryggissveitir brugðust hratt og harkalega við og brutu þau fljótt á bak aftur. Leiðtogar þeirrar byltingar hafa ekki látið á sér kræla síðan, segir Geranmayeh. „Þeir eru brenndir af róttækum aðgerðum fortíðar. Nú vilja þeir fara hefðbundnari leiðir stjórnmálanna.“

Einn leiðtoganna, Mohammad Khatami, hefur frá árinu 2009 verið óheimilt að koma fram opinberlega. Hann sver af sér mótmælin nú. 

Mohammad Ali Shabani, ritstjóri Iran Pulse for Al-Monitor, segir að leiðtogaleysi mótmælanna nú gæti haft sína kosti. Þar með væri ljóst að mótmælendur væru ekki að beina sjónum sínum að einhverjum sérstökum stjórnmálamönnum eða öflum. En hann segir það líka mögulega verða til þess að koma í veg fyrir að mótmælin geti þróast út í sannkallaða byltingu þar sem skýrar kröfur um breytingar verði settar fram. „Þar sem ekki er hægt að setja kröfur mótmælendanna í ákveðinn farveg gæti það að lokum orðið til þess að fæla mótmælendur af götunum. Það gæti líka orðið til þess að stjórnvöld bregðist enn harðar við.“

Hver verða næstu skref forsetans?

Hassan Rouhani Íransforseti lofaði efnahagslegum umbótum er hann komst til valda. Hann lofaði einnig lýðræðisumbótum og auknu frelsi borgaranna. En mótmælin nú sýna að óánægja er með hversu hægt framfarir eru innleiddar. 

Engu að síður gæti forsetinn notið góðs af mótmælunum að ákveðnu leyti. „Ef honum tekst að koma á ró á næstu vikum yrði hann álitinn góður stjórnandi við erfiðar aðstæður,“ segir  Tabatabai. „En hann verður að taka kröfur þeirra sem minna mega sín félagslega og efnahagslega alvarlega.“ Þannig þurfi hann að slaka á niðurskurðarkröfum í nýjustu fjárlögum landsins sem m.a. áttu að lækka útgjöld til velferðarmála og hækka verð á eldsneyti.

Stuðningsmenn stjórnvalda hafa einnig fjölmennt út á götur borga og …
Stuðningsmenn stjórnvalda hafa einnig fjölmennt út á götur borga og bæja í Íran. AFP

Shabani segir að lýðræðisumbætur séu auk þess nauðsynlegar. Þannig verði fólk að geta komið saman og mótmælt friðsamlega. Réttur til slíkra mótmæla er stjórnarskrárbundinn en hingað til hefur hann verið virtur að vettugi. „Og hann verður að hefja viðræður við æðstaklerkinn og sannfæra hann um að takast á við tilteknar valdablokkir.“

Rouhani hefur til dæmis átt í erfiðleikum með að hafa stjórn á hersveitunum sem ætlað er að vernda hið íslamska stjórnkerfi landsins. Þar hefur auður safnast á fárra hendur og hefur forsetinn talað fyrir daufum eyrum um að viðskiptagjörningar þeirra verði gerðir opinberir og að af eignunum verði greiddir skattar. 

„Hann skaut fyrsta skotinu í þessari baráttu er hann ákvað að auka gegnsæi í fjárlagafrumvarpi þessa árs,“ segir Shabani. „Nú þarf hann að grípa til aðgerða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert