Suður-Kóreumenn hafa lagt til að viðræður verði haldnar á milli embættismanna þeirra og nágranna þeirra í Norður-Kóreu á landamærum ríkjanna í næstu viku.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, lagði til í nýársávarpi sínu að ríkin myndu reyna að slaka á spennunni sín á milli og eiga samtal, meðal annars um þátttöku Norður-Kóreu á Vetrarólympíuleikunum, sem fara fram í Pyeongchang í Suður-Kóreu í febrúar.
Nú hafa Suður-Kóreumenn svarað þeirri bón á jákvæðan hátt.
Cho Myoung-gyon sameiningarráðherra Suður-Kóreu og helsti tengiliður þeirra við nágrannana í norðri, lagði til að fundur yrði haldinn í Panmunjom, þorpi sem liggur við landamæri ríkjanna, strax í næstu viku.
Fundurinn yrði sóttur af háttsettum embættismönnum frá báðum ríkjum.
„Við vonum að við getum sest niður og átt hreinskiptar umræður,“ sagði Cho á blaðamannafundi fyrr í dag.
Ef Norður-Kórea tekur vel í þessar umleitanir frá suðri verða þetta fyrstu opinberu viðræðurnar á milli ríkjanna tveggja í tvö ár.
Suður-Kóresk stjórnvöld vonast til þess að viðræður geti leitt til aukinnar þýðu í samskiptum ríkjanna á Kóreuskaga, eftir mikla spennu og stríðsógn síðustu árin vegna kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreu.