Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi hans, hafi misst vitið eftir að hann missti vinnuna í Hvíta húsinu.
Greint var frá því fyrr í dag að Bannon telur að fundi Donalds Trumps yngri, sem hann átti með hópi Rússa í Trump-turninum á meðan kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum stóð yfir, megi lýsa sem landráði.
Þetta kemur fram í nýrri bók bandaríska blaðamannsins Michael Wolff sem kemur út í næstu viku. Breska blaðið Guardian hefur bókina undir höndum og greindi frá skoðun Bannon í dag.
Greint var frá því í júlí í fyrra að sonur Donald Trump yngri, Jared Kusner, tengdasonur hans, og Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trumps, hefðu fundað með rússneskum lögmanni í Trump-turninum í júní 2016.
Frétt mbl.is: Fundaði með rússneskum lögmanni
„Steve Bannon tengist mér eða forsetaembættinu á engan hátt. Þegar hann var rekinn missti hann ekki aðeins starf sitt, heldur vitið líka,“ segir Trump í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.
Trump tekur það einnig fram að Bannon hafi unnið fyrir hann eftir að hann hafi hlotið útnefningu Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum.
„Nú þegar hann er einn síns liðs er hann að læra að það að sigra er ekki alltaf jafnauðvelt og ég læt það líta út fyrir að vera,“ segir Trump.