Trump segir Bannon hafa misst vitið

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir fyrrverandi ráðgjafa sinn, Stephen Bannon, …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir fyrrverandi ráðgjafa sinn, Stephen Bannon, hafa misst vitið. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi hans, hafi misst vitið eftir að hann missti vinnuna í Hvíta húsinu.

Greint var frá því fyrr í dag að Bannon telur að fundi Donalds Trumps yngri, sem hann átti með hópi Rússa í Trump-turninum á meðan kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum stóð yfir, megi lýsa sem landráði.

Þetta kemur fram í nýrri bók bandaríska blaðamannsins Michael Wolff sem kemur út í næstu viku. Breska blaðið Guardian hefur bókina undir höndum og greindi frá skoðun Bannon í dag. 

Greint var frá því í júlí í fyrra að sonur Donald Trump yngri, Jared Kusner, tengdasonur hans, og Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trumps, hefðu fundað með rússneskum lögmanni í Trump-turninum í júní 2016.

Frétt mbl.is: Fundaði með rússneskum lögmanni 

„Steve Bannon tengist mér eða forsetaembættinu á engan hátt. Þegar hann var rekinn missti hann ekki aðeins starf sitt, heldur vitið líka,“ segir Trump í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.

Trump tekur það einnig fram að Bannon hafi unnið fyrir hann eftir að hann hafi hlotið útnefningu Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum.

„Nú þegar hann er einn síns liðs er hann að læra að það að sigra er ekki alltaf jafnauðvelt og ég læt það líta út fyrir að vera,“ segir Trump.

Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Trump, segir að sonur forsetans hafi …
Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Trump, segir að sonur forsetans hafi framið landráð með því að funda með rússneskum lögmanni sem bjó yfir upplýsingum um Clinton á meðan kosningabaráttan stóð sem hæst. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert