Undirbýr lagasetningu gegn falsfréttum

Emmanuel Macron flutti áramótaávarp sitt í Elysee-höllinni í París í …
Emmanuel Macron flutti áramótaávarp sitt í Elysee-höllinni í París í dag. AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, undirbýr nú lagafrumvarp sem á að taka á svokölluðum falsfréttum (e. Fake news).

Hluti af lagasetningunni felst í að herða reglur um hvers konar efni megi birta á samfélagsmiðlum.

Macron segir að úthugsaðar tilraunir hafi verið gerðar til að gera fólki erfitt fyrir að greina á milli sannra og falskra frétta og draga þannig úr trú almennings á frjálst lýðræðisríki.

Stjórnmálaskýrendur segja engan vafa leika á því að Macron hafi haft Rússland í huga þegar hann greindi frá ákvörðun sinni í áramótaávarpi sem hann flutti í Elysee-höllinni í París í dag.

Macron segir að mögulegt sé að sigrast á útbreiðslu ósanninda á samfélagsmiðlum með því að leggja til nokkur þúsundir evra í verkefnið.

„Þúsundir áróðursaðganga á samfélagsmiðlum eru að dreifast um heiminn, á öllum tungumálum, lygar sem ætlað er að smána stjórnmálamenn, opinberar persónur og fjölmiðlamenn,“ sagði Macron.  

Samkvæmt frumvarpinu verða einnig sett takmörk á hversu háum upphæðum verður hægt að eyða í kostað fréttaefni.

„Við munum þróa okkar eigin lagakerfi til að vernda lýðræðið fyrir falsfréttum,“ sagði Macron.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka