Lögfræðingar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna hafa sent Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafa Trumps, bréf þar sem hann er sagður hafa brotið gegn þagnareiði sem hann skrifaði undir í starfi sínu. BBC greinir frá.
Í bréfinu er Bannon sagður hafa ófrægt forsetann með því að ræða við Michael Wolff, höfund bókarinnar Fire and Fury: Inside the Trump White House, sem kemur út í næstu viku. Í bókinni, sem byggist á 200 viðtölum, kemur meðal annars fram hve óundirbúinn Trump var fyrir embættið.
Forsetinn sagði í gær að Bannon hefði augljóslega ekki bara misst vinnuna í Hvíta húsinu heldur hefði hann einnig misst vitið. Þá segir fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sarah Sanders, bókina fulla af fölskum og villandi frásögnum.
Lögmenn Trumps segja Bannon hafa rofið þagnareið starfsmanna Hvíta hússins með því að ræða við Wolff um Trump og fjölskyldu hans og gefa honum viðkvæmar og ærumeiðandi upplýsingar.