Flestir kalla hann „fífl“ og „fávita“

Bókin heitir Fire and Fury og selst eins og heitar …
Bókin heitir Fire and Fury og selst eins og heitar lummur. AFP

Michael Wolff, höfundur hinnar umtöluðu bókar um Donald Trump, segir að margir nánir samstarfsmenn forsetans kalli hann „fávita“ og „fífl“ og segja hann „haga sér eins og barn“.

Trump hefur sagt að bók Wolffs, sem kemur út í dag, sé full af lygum. Til stóð að gefa bókina út í næstu viku en útgáfudeginum var flýtt í kjölfar tilrauna lögmannateymis Trumps til að fá lögbann á útgáfuna. Þá höfðu langar biðraðir strax myndast fyrir utan bókabúðir sem útgefendurnir Henry Holt & C vildu friða. 

„Ég skal segja ykkur frá þeirri lýsingu sem allir gáfu, sem allir höfðu sameiginlega [á forsetanum],“ sagði Wolff í viðtali við News Today á NBC-sjónvarpsstöðinni í dag. „Það segja allir að hann sé eins og barn. Og það sem það þýðir er að hann vill fá viðurkenningu strax. Þetta snýst allt um hann sjálfan.“

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að ein bókabúð í Washington hafi hafið sölu bókarinnar á miðnætti. Öll eintökin hafi selst upp á innan við tuttugu mínútum.

Bókin heitir Fire And Fury eða Eldur og ofsareiði. Bókin er sögð byggjast á viðtölum við tugi náinna samstarfsmanna Trumps og lýsa þeir hvaða mann hann hafi að geyma og hverjar hefðir hans eru og heimilislífið.

Í bókinni er m.a. haft eftir Steve Bannon, einum helsta ráðgjafa Trumps í kosningabaráttunni, að hann hafi efast um færni hans til að taka við embættinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert