Stephen K. Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, er hættur sem framkvæmdastjóri hægriöfgafréttaveitunnar Breitbart. New York Times greindi frá þessu í dag, en Rebekah Mercer, einn af eigendum fréttaveitunnar, er sögð bera ábyrgð á brotthvarfi Bannons.
Bannon á nú í miklum erfiðleikum með að sefa reiði sem orð hans um andlega heilsu Donald Trump Bandaríkjaforseta í nýrri bók Michael Wolff, Fire and Fury: Inside the Trump White House, hafa vakið hjá stuðningsmönnum forsetans.
Bannon og Breitbart munu vinna í sameiningu að því að þetta gangi vel fyrir sig, sagði í yfirlýsingu frá Larry Solov, forstjóra fyrirtækisins.
Haft er eftir Bannon í yfirlýsingunni að hann sé „stoltur af þeim árangri sem Breitbart-teymið hafi náð og að tekist hafi að koma á fót heimsklassafréttaveitu á svo stuttum tíma.“