Yfir tvö hundruð hafa verið handteknir og tugir lögreglumanna hafa slasast í átökum við mótmælendur í Túnis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu í dag en fjölmargir hafa tekið þátt í mótmælum vegna niðurskurðaráætlana stjórnvalda.
Arabíska vorið var áberandi í Túnis árið 2011 og vakti mikla athygli hvað umbreyting yfir í lýðræði gekk vel í þessu ríki í Norður-Afríku. En nú sjö árum síðar ríkir mikil spenna vegna efnahagsþrenginga. Virðisaukaskattur hefur verið hækkaður mjög og eins er staðan mjög erfið í velferðarmálum. Ný fjárlög tóku gildi í upphafi árs og er niðurskurður og sparnaður þar alls ráðandi.
Talsmaður innanríkisráðuneytisins, Khalifa Chibani, segir að 49 lögreglumenn hafi slasast í átökum við mótmælendur í gærkvöldi og í nótt og að 206 mótmælendur hafi verið handteknir. Mótmælt hefur verið tvö kvöld í röð í flestum borgum og bæjum landsins.