Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sparar ekki stóru orðin þegar hann tjáir sig um innflytjendur samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla. „Hvers vegna er allt þetta fólk frá þessum skítalöndum að koma hingað?“
Ummælin lét Trump falla á fundi með þingmönnum í forsetaskrifstofu sinni í Hvíta húsinu í gær. Skítalöndin (shithole countries) sem um ræðir eru Haítí, El Salvador og ríki Afríku.
Talsmaður Hvíta hússins, Raj Shah, hefur um þetta að segja: „Ákveðnir stjórnmálamenn í Washington velja að berjast fyrir erlend ríki en Trump forseti mun alltaf berjast fyrir bandarísku þjóðina.“
Shah segir að líkt og annars staðar þar sem móttaka innflytjenda fer eftir einstökum tilvikum fyrir sig þá sé Trump að berjast við að finna viðvarandi lausn sem geri Bandaríkin enn sterkari. Með því að taka á móti þeim sem geti lagt sitt af mörkum fyrir þjóðfélagið og aukinn hagvöxt.
Trump muni alltaf hafna veikburða skyndilausnum sem ógni lífi harðduglegra Bandaríkjamanna.
Forseti Bandaríkjanna lét ummælin falla á fundi með þingmönnum úr báðum flokkum sem eru að reyna að finna lausn á innflytjendamálum landsins.
Þingmaður demókrata, Richard Durbin, hafði lokið máli sínu um að veita fólki sem kemur frá löndum sem hafa orðið illa út úr náttúruhamförum, stríði eða farsóttum, tímabundið dvalarleyfi í Bandaríkjunum þegar Trump lét ummælin falla um skítalöndin. (Why are we having all these people from shithole countries come here?).
Washington Post greinir frá því að Trump hafi tjáð þingmönnum að Bandaríkin ættu miklu frekar að taka á móti fólki frá löndum eins og Noregi en daginn áður hafði hann tekið á móti forsætisráðherra Noregs, Ernu Solberg.
Ekki er langt síðan New York Times hafði eftir Trump að íbúar Haítí væru allir með alnæmi.