„Við erum komin á einkennilegan stað þegar við ræðum í alvöru um að Oprah Winfrey taki við af Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Þetta er sannarlega ein birtingarmynd kreppunnar sem bandarísk stjórnmál eru komin í, að við séum í alvöru að hvetja aðra fræga manneskju úr afþreyingariðnaðinum í embættið. Það er dapurlegt að fólk úr stjórnmálum sé ekki einu sinni í umræðunni.“
Þetta segir Lilja Hjartardóttir stjórnmálafræðingur en mikið hefur verið rætt og ritað í vikunni um hugsanlegt forsetaframboð sjónvarpskonunnar Opruh Winfrey árið 2020 eftir eldræðuna sem hún hélt á Goldon Globe-hátíðinni um liðna helgi.
Að dómi Lilju vega áhrif fjölmiðla þungt í þessu sambandi. Almenningur fylgist betur með því sem er að gerast í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum en í eiginlegum stjórnmálum. „Þetta er til marks um það að fólk sé búið að fá nóg af stjórnmálum, klíkuskap og spillingu í Washington. Umræða um stjórnmál er neikvæð og fólk sér ekki breytingar með nýjum frambjóðendum, sem eru þar að auki fáir því það er mjög erfitt að sigra sitjandi þingmenn. Af því leiðir t.d. að konur eru einungis um 20% þingmanna og eins sýnist manni að það sé aukin harka í þinginu. Kosningaþátttaka í þingkosningum er einnig mjög léleg, um 40%, sem er vandræðalegt fyrir land sem lítur á sig sem forysturíki meðal lýðræðisríkja,“ segir Lilja.
Spurð um möguleika Winfrey segir Lilja: „Hún fengi fljúgandi fylgi, að minnsta kosti til að byrja með. Fyrst Donald Trump náði kjöri, sem enginn hafði spáð nema þá helst Michael Moore, hlýtur Oprah að eiga raunhæfa möguleika á því að verða forseti. Það veltur þó á ýmsu, ekki síst mótframbjóðendunum. En Oprah er með fjármagnið og eigin fjölmiðla, sem virðist skipta æ meira máli. Það segir okkur sennilega allt sem segja þarf um stöðu embættisins.“
Aðrir eru jákvæðari. „Ég hef haft efasemdir um fólk sem ekki býr að pólitískri reynslu, þar sem nýlegt dæmi sýnir okkur að við þurfum reynda manneskju, en ég held að hún komist upp með það. Fólki líkar vel við hana, treystir henni og hún er alvöru viðskiptajöfur,“ sagði pólitíski ráðgjafinn Robert Shrum, sem vann bæði að forsetaframboði demókratanna Als Gores og Johns Kerrys, við breska blaðið The Guardian.
Nánar er fjallað um hugsanlegt forsetaframboð Opruh Winfrey í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.