Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er við hestaheilsu. Frá þessu greindi Ronny Jackson, læknir forsetans í Hvíta húsinu, eftir að Trump hafði gengist undir sína fyrstu læknisskoðun frá því hann tók við embættinu.
Jackson sendi frá sér stutta yfirlýsingu að lokinni skoðun sem stóð yfir í þrjár klukkustundir og herlæknar framkvæmdu á hinum 71 árs gamla forseta. Jackson segir að skoðunin hafi gengið afskaplega vel og sagðist gefa frekari upplýsingar um skoðunina á þriðjudag. Þetta kemur fram á vef BBC.
Þar segir enn fremur, að engin geðrannsókn hafi verið framkvæmd en í nýútkominn bók Michael Wolff um fyrsta ár forsetans, Fire and Fury: Inside the Trump White House, eru gerðar athugasemdir við geðheilsu forsetans. Þar kemur m.a. fram að ráðgjafar Trumps líti á hann sem barn sem þurfi stöðugt að gleðja.
Trump hefur sagt að bók Wolff sé full af lygum. Þá hefur Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vísað því á bug að andlegri heilsu forsetans fari hrakandi.
Yfirlýsing læknisins í Hvíta húsinu endurómar orð fyrrverandi læknis Trumps, Harold Bornstein, sem sagði í desember 2015, fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, að Trump yrði „heilbrigðasti einstaklingurinn sem yrði kosinn til að gegna forsetaembættinu“.
Læknisskoðunin fór fram í gær á Walter Reed-sjúkrahúsinu í Bethesda í Maryland.