Franska leikkonan Catherine Deneuve hefur beðist afsökunar á því hafi hún móðgað einhver fórnarlömb kynferðisofbeldis með því að skrifa undir opið bréf þar sem 100 franskar konur gagnrýna hreintrúarstefnu sem þær segja vera að ryðja sér til rúms í kjölfar hneykslismála tengdum kynferðislegri áreitni. AFP-fréttastofan greinir frá.
Bréfið var birt í franska blaðinu Le Monde síðastliðinni viku og hefur vakið hörð viðbrögð. Deneuve sagði í kjölfar birtingar bréfsins að karlar mættu reyna við konur, en á sama tíma væri kynferðisofbeldi glæpur.
Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina segist hún standa við undirskriftina og orð sín. „Ég vil ávarpa öll fórnarlömb þessara hræðilegu gjörða sem fannst ráðist á sig í þessu bréfi sem birtist í Le Monde. Fórnarlömbin og aðeins þau bið ég afsökunar,“ sagði hún í yfirlýsingu sem birtist í dag.
Frétt mbl.is: „Karlar mega reyna við konur“
Konurnar sem skrifuðu undir umrætt bréf eru rithöfundar, listamenn og fræðimenn. Þær tala um nornaveiðar sem geti ógnað kynferðislegu frelsi fólks. Bréfið er ritað í kjölfar umræðu um kynferðisbrot Hollywood-kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinsteins.
Í bréfinu er ráðist á herferðir eins og #MeToo og frönsku útgáfuna #Balancetonporc (komið ykkur út svínin ykkar, í lauslegri þýðingu) og segja konurnar að þetta sé ný útgáfa hreintrúarstefnu. Að sjálfsögðu sé nauðsynlegt að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum, ekki síst á vinnumarkaði, en baráttan hafi breyst í nornaveiðar.
„Barátta sem hófst með því að veita konum frelsi til að tjá sig hefur í dag snúist upp í andstöðu sína. Við hræðum fólk til þess að tala eftir bókinni og þöggum niður í þeim sem ekki falla í kramið. Þær konur sem neita því að vera með eru álitnar samsekar eða svikarar,“ segir meðal annars í bréfinu.