Hvað gerðist eiginlega á Havaí?

Snemma að morgni laugardags í borginni Honolulu á Hawaii.
Snemma að morgni laugardags í borginni Honolulu á Hawaii. AFP

Yfirvöld almannavarna á Havaí hafa ítrekað beðist afsökunar á því að hafa óvart sent út skilaboð um yfirvofandi eldflaugaárás á eyjurnar á laugardag. Verkferlum hefur nú verið breytt til að koma í veg fyrir að slík mistök geti endurtekið sig.

Snemma á laugardagsmorgunn að staðartíma fengu íbúar á Havaí send eftirfarandi skilaboð í síma: „HÆTTA Á ELDFLAUGAÁRÁS Á HAVAÍ. LEITIÐ SKJÓLS STRAX. ÞETTA ER EKKI ÆFING.“

Skiljanlega tók fólk þetta alvarlega. Margir fjölmiðlar sögðu frá skilaboðunum. Aðeins nokkrum vikum áður höfðu almannavarnaflautur Havaí verið prófaðar í fyrsta skipti í mörg ár. Sumir gripu vatn og mat og fóru ofan í kjallara eða að neyðarskýlum á eyjunum. Fólk hefur lýst því að það raunverulega hélt að það væri að fara að deyja.

Upphaflega sögðu yfirvöld að mistökin hefðu falist í því að starfsmaður ýtti á „rangan takka“. Þau hafa nú útskýrt málið ennfrekar.

Skilaboð sem íbúar og ferðamenn á Hawaii fengu í símann …
Skilaboð sem íbúar og ferðamenn á Hawaii fengu í símann sinn snemma að morgni laugardags. AFP

Málið er að á vaktaskiptum í höfuðstöðvum almannavarna að morgni laugardags valdi starfsmaður rangt „snið“ við prófun á viðvörunarkerfi. Velja á snið í tölvunni sem sendir aðeins skilaboð á starfsmenn innanhúss. Starfsmaðurinn valdi hins vegar snið til að senda skilaboð á alla eyjaskeggja. Eftir að hafa valið það spurði forritið hvort hann væri viss um að hann vildi senda út skilaboð á alla og mistökin fólust ekki síst í því að starfsmaðurinn svaraði „já“. Þar með voru viðvörunarorð um yfirvofandi eldflaugaárás komin til allra eyjaskeggja sem og ferðamanna sem staddir vorum á eyjunni. Skilaboðin voru ennfremur send á ritstjórnir fjölmiðla. 

En við þetta kom í ljós mikill galli í viðvörunarkerfinu. Ekki var hægt að senda strax út sambærileg skilaboð um að um misskilning væri að ræða. Almannavarnir gripu því á það ráð að senda tölvupóst og twitterskilaboð til að leiðrétta málið. Það liðu hins vegar 38 mínútur áður en hægt var að senda skilaboð í alla síma - sömu leið og hin ógnvænlegu skilaboð höfðu farið fyrr um morguninn.

Nú er búið að laga viðvörunarkerfið þannig að ef mistök sem þessi endurtaka sig, sem vonir standa til að gerist ekki, þá er hægt að senda strax út leiðréttingu.

Starfsmaðurinn sem gerði hin afdrifaríku mistök hefur fengið tiltal en honum hefur ekki verið sagt upp störfum, að því er fram kemur í fréttaskýringu CNN um málið.

„Ég veit það best sjálfur að það sem gerðist er algjörlega óviðunandi,“ sagði ríkisstjóri Havaí, David Ige, eftir að málið fór að skýrast. „Mér þykir leitt að fólk hafi þurft að upplifa sársauka og rugling.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert