Eignuðust 13 börn vegna „vilja Guðs“

David og Louise Turpin á brúðkaupsdaginn sumarið 2016 ásamt börnunum …
David og Louise Turpin á brúðkaupsdaginn sumarið 2016 ásamt börnunum þrettán, sem eru á aldrinum eins árs til 28 ára þegar myndin er tekin. Ljósmynd/Facebook

Hjónin David og Louise Turpin, sem handtekin voru á sunnudag, grunuð um að hafa pyntað og haldið föngnum þrettán börnum sínum á aldrinum tveggja til 29 ára, eru ákaflega trúuð og trúa því að Guð hafi ætlað þeim að eignast mörg börn.

Frá þessu greina foreldrar Davids Turpin. Þau segja í samtali við ABC sjónvarpsstöðina að ásakanirnar á hendur syni sínum og tengdadóttur komi þeim í opna skjöldu og að þau séu í áfalli.

Lögreglan fékk vitn­eskju um heim­ilið eft­ir að 17 ára gam­alli stúlku tókst að flýja að heim­an á sunnu­dag og hringja í lög­reglu úr farsíma sem hún fann. Hún var svo horuð að lög­regl­an taldi hana tíu ára gamla.

Frétt mbl.is: Hlekkjuðu börnin við rúmin

James og Betty, amma og afi barnanna þrettán ef rétt reynist, eru búsett í Vestur-Virginíu. Þau segja að það hafi verið „Guðs vilji“ að hjónin hafi eignast svona mörg börn. Þau heimsóttu fjölskylduna á heimili þeirra í Kaliforníu síðast fyrir fjórum eða fimm árum. Þá fannst þeim börnin vera heldur grönn, en að þau hafi litið út fyrir að vera „hamingjusöm fjölskylda.“

Hjónin Louise Anna Turpin, 49 ára og David Allen Turpin, …
Hjónin Louise Anna Turpin, 49 ára og David Allen Turpin, 57 ára, eru grunuð um að hafa vanrækt og pyntað 13 börn sín. AFP

Gátu þulið upp löng vers úr Biblíunni

Að sögn James og Betty er fjölskyldan hluti af Hvítasunnusöfnuði en enginn slíkur söfnuður sé starfandi í heimabænum, Perris, og þau hafi því ekki sótt kirkju. Barnabörnin hafi samt sem áður fengið „mjög stranga heimakennslu“ og gátu munað löng vers úr Biblíunni, að sögn  ömmunnar og afans.

Þá vissu foreldrar Davids ekki til þess að hjónin eða börnin hefðu átt einhverja vini í hverfinu.

Öll börnin nema hið yngsta ásamt Elvis-eftirhermu sem gaf saman …
Öll börnin nema hið yngsta ásamt Elvis-eftirhermu sem gaf saman foreldrana. Ljósmynd/Facebook

Eins og börnin hafi aldrei séð sólina

Nágrannar fjölskyldunnar eru flestir mjög undrandi á að svona nokkuð geti átt sér stað í hverfinu, sem er hefðbundið millistéttarhverfi.

„Börnin voru fölleit, næstum eins og þau hafi aldrei séð sólina,“ segir einn nágranni í samtali við ABC-fréttastofuna.

Lög­reglu­menn héldu í fyrstu að öll börnin væru undir 18 ára, en fengu áfall þegar þeir komust að því að sjö þeirra voru full­orðin, á aldr­in­um 18-29 ára, en vegna vannær­ing­ar og óþrifa  virt­ust þau yngri en raun­in er.

Nágranninn segir einnig að hjónin hafi haldið sig að mestu út af fyrir sig og að hún hafi aldrei reynt að skipta sér af þeim. „Ég virti einkalíf þeirra. En núna veldur það mér hjartasári og mig langar til að gráta.“

Heimili Turpin-hjónanna er í hefðbundnu millstéttarhverfi í bænum Perr­is, sem …
Heimili Turpin-hjónanna er í hefðbundnu millstéttarhverfi í bænum Perr­is, sem er 95 km suðaust­ur af Los Ang­eles. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert