Norður- og Suður-Kórea munu koma fram undir sama fánanum á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu 9. febrúar. Ríkin munu einnig senda sameiginlegt lið í íshokkí kvenna.
Þetta samþykktu stjórnvöld landanna tveggja á fundi sínum í bænum Panmunjom sem liggur að landamærunum, að sögn Yonhap fréttastofunnar. Í næstu viku munu fulltrúar frá Norður-Kóreu heimsækja suðrið og meðal annars taka út aðstöðuna á leikvangi ólympíuleikanna.
Á næstunni munu keppendur frá Suður-Kóreu í skíðaíþróttum æfa sig fyrir ólympíuleikana á skíðasvæðinu Masikryong fyrir norðan.
Fyrir viðræðurnar höfðu ráðamenn landanna tveggja ekki átt í neinum samskiptum frá því í desember 2015.
Norður- og Suður-Kórea hafa áður gengið saman inn á opnunarhátíð Ólympíuleika. Þau gerðu það fyrir leikana árið 200, 2004 og vetrarleikana árið 2006.
Norður-Kórea sniðgekk hins vegar Ólympíuleikana í Seoul í Suður-Kóreu árið 1988.