Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sakað Palestínumenn um að bera ekki virðingu fyrir Bandaríkjunum. Hann hótar því að hætta að veita þeim fjárhagsaðstoð sem er hundruð milljóna dollara virði vilji þeir ekki taka þátt í viðræðum um frið fyrir botni Miðjarðarhafs.
Trump sagði að Palestínumenn hafi „vanvirt okkur fyrir viku síðan með því að leyfa okkar góða varaforseta ekki að hitta þá“.
„Við gefum þeim hundruð milljóna,“ bætti hann við á fundi sínum með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í Davos í Sviss.
„Þessir peningar fara ekki til þeirra nema þeir setjist niður og ræði um frið.“
Andað hefur sérlega köldu á milli Palestínumanna og Bandaríkjamanna eftir að Trump viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.
Talsmaður Mahmud Abbas, leiðtoga Palestínu, sagði að Palestínumenn muni ekki ræða við bandaríska ráðamenn fyrir en ákvörðunin um Jerúsalem hefur verið dregin til baka.