Kúrdar í Afrin-héraði í Sýrlandi biðla nú til Bashar al-Assads Sýrlandsforseta um að hann verndi þá gegn árásum Tyrkja að því er danska ríkisútvarpið DR greinir frá. Tyrkneski herinn hóf í síðustu viku árásir á Afrin-hérað með það að markmiði að koma kúrdískum uppreisnarsveitum YPG úr norðurhluta Sýrlands.
Hafa Tyrkir komið herbílum og sveitum landhers síns fyrir við landamærin og stendur herinn auk þess fyrir loftárásum á svæðið.
„Við biðjum sýrlenska ríkið um að efna skyldur ríkisins gagnvart Afrin og verja landamærin gegn árásum tyrkneskra ríkisins,“ sagði í yfirlýsingu frá ráðamönnum kúrda á svæðinu. „Við biðjum Sýrlandsher að auka styrk sinn á landamærunum við Afrin.“
Áhlaup Tyrkja sem ber nafnið „Ólífugreinaraðgerðin“ hófst í síðustu viku og er markmið Tyrkja að mynda 30 km hlutlaust svæði á landamærum Tyrklands og Sýrlands sem á að ná milli Afrin og Manjibi. Sá hluti Sýrlands er nefnilega undir stjórn kúrda og telur Tyrklandsstjórn kúrda á Sýrlandi vera framlengingu á uppreisnarhópum kúrda í Tyrklandi, sem þeir telja til hryðjuverkamanna.
Sýrlandsstjórn hefur fordæmt aðgerðir Tyrkja á svæðinu, en hefur ekki gripið til neinna aðgerða vegna þeirra. Ástæðan er að sögn DR sú að aðgerðir Tyrkjar njóta blessunar Rússa, sem í raun stjórna loftferðum yfir Sýrlandi.
Nokkur ár eru frá því að Sýrlandsstjórn hefur viðhaldið landamæraeftirliti á landamærum Tyrklands og Sýrlands og hefur stjórnin í raun látið kúrdum í Sýrlandi það eftir að sjá um slíkt eftirlit.