Sparsamur milljarðamæringur

Mynd og bók til minningar um Ingvar Kamprad, af stofnanda …
Mynd og bók til minningar um Ingvar Kamprad, af stofnanda IKEA, í verslun í Stokkhólmi. AFP

Ingvar Kamprad, stofn­andi IKEA, lést í dag 91 árs að aldri. Hann var millj­arðamær­ing­ur og einn af rík­ustu íbú­um Evr­ópu en hann stofnaði IKEA þegar hann var 17 ára gam­all. Það er óhætt að segja að hann hafi ekki lifað um efni fram því hann var þekkt­ur fyr­ir spar­semi.

Hann keyrði um á göml­um Volvo, keypti föt­in sín á flóa­markaði, tók nesti með sér í vinn­una og flaug ekki á fyrsta far­rými svo fátt eitt sé nefnt. Hon­um var mikið í mun um að sýna gott for­dæmi og var ætíð trúr gild­um sín­um.   

Aðhalds­semi í fjár­mál­um sagði hann að hon­um væri í blóð borið. „Það er í eðli íbúa Smá­landa að sýna aðhalds­semi,“ sagði Kamprad í heim­ild­ar­mynd um hann sem var sýnd í sænska sjón­varp­inu í fyrra. Eitt af því sem gerði IKEA að stór­veldi má rekja til lágs vöru­verðs sem alltaf hef­ur ein­kennt fyr­ir­tækið.  

AFP

Kamprad  virðist ekki hafa verið mikið fyr­ir kast­ljós fjöl­miðlanna og náði hann að stór­um hluta að halda per­sónu­legu lífi sínu fyr­ir sig. Fyrri kona hans hét Kerst­in Wadling og ætt­leiddu þau dótt­ur­ina Anniku. Seinni eig­in­kona hans hét Marga­retha Kamprad-Stennert og eignaðist hann með henni þrjá syni, Peter, Jon­as og Matt­hi­as.

Kamprad stofnaði fyr­ir­tækið þegar hann var 17 ára gam­all seldi skrif­stofu­vör­ur meðal ann­ars vél­rit­un­ar­vör­ur, penna og mynd­aramma sem hann keyrði út á hjól­inu sínu. Hann áttaði sig fljót­lega á því að hann græddi á því að bjóða sam­keppn­is­hæf­ar vör­ur á lægra verði.

Árið 1947 fór hann að selja hús­gögn og skömmu síðar bauð hann til sölu hús­gögn í hand­hæg­um pakkn­ing­um sem kaup­and­inn setti sjálf­ur sam­an. Hug­mynd­in kviknaði þegar hann horfði á mann  taka fæt­ur und­an borði áður en hann kom því fyr­ir upp á bíln­um. Árið 1958 opnaði fyrsta IKEA búðin í borg­inni Alm­hult í Smá­lönd­un­um. Nafn versl­un­ar­inn­ar er sett sam­an úr nafni hans, sveita­bæn­um Elmt­aryd sem fjöl­skyld­an bjó og A stend­ur fyr­ir þorpið Aunn­aryd.

Eft­ir að fyrsta versl­un­in var stofnuð var ekki aft­ur snúið og IKEA versl­un­un­um hélt áfram að fjölga jafnt og þétt og all­an heim. Vöru­listi IKEA er með þeim vin­sæl­ustu í heim­in­um enda er hann prentaður í 200 millj­ón ein­tök­um á 33 tungu­mál­um og send­ur inn á fjöl­mörg heim­ili. IKEA-list­inn er sagður vin­sælli en bibl­í­an. Í dag er IKEA versl­an­irn­ar orðnar 389 um all­an heim.

Lík­lega er vin­sæl­asta vara IKEA í dag Billy bók­hill­an. Gill­is Lund­gren hannaði hana árið 1979 og selst hún á 10 sek­úndna fresti í versl­un­um IKEA.

Flaggaði í hálfa stöng við IKEA í Garðabæ.
Flaggaði í hálfa stöng við IKEA í Garðabæ. AFP

Árið 2016 voru eign­ir Kamprads séu metn­ar á 610 millj­arða sænskra króna sem svar­ar til 9.300 millj­örðum ís­lenskra króna. Hins veg­ar er erfitt að greina hvað til­heyri hon­um sjálf­um, börn­um hans og hvað sé í sam­eig­in­leg­um sjóði fjöl­skyld­unn­ar í skattap­ara­dís­inni Liechten­stein.

Árið 1973 flúði Kamprad skatta í heima­land­inu til Dan­merk­ur og þaðan flutti hann til Sviss þar sem skatt­ar eru enn lægri. Árið 2014 flutti hann síðan lög­heim­ili sitt til Svíþjóðar.

Und­an­farið hef­ur verið deilt um skatt­greiðslur IKEA á sex ára tíma­bili. Talið er að IKEA hafi kom­ist hjá því að greiða að minnsta kosti 1 millj­arð evra í skatta í Evr­ópu á sex ára tíma­bili með því að not­ast við flókið net eign­ar­halds­fé­laga og greiða einka­leyf­is­gjöld til dótt­ur­fé­laga inn­an sam­stæðunn­ar sem voru staðsett þar sem hægt var að kom­ast hjá skatt­greiðslum af hagnaði af einka­leyf­um.

Árið 2013 var fjöl­skyldu­deila og hon­um var gert að af­henda son­um sín­um millj­ón­ir doll­ara vegna eigna sem hann var skráður fyr­ir per­sónu­lega.

AFP

Fyr­ir nokkr­um árum var hann einnig gagn­rýnd­ur fyr­ir tengsl sín við sænska nas­ista­flokk­inn í seinni heims­styrj­öld­inni. Hann kom fram í fjöl­miðlum og baðst af­sök­un­ar á að hafa aðhyllst stefnu flokks­ins á sín­um tíma og sagði það barna­skap sem hann sjái eft­ir núna.

Fjöl­marg­ir hafa minnsta hans á sam­fé­lags­miðlum í dag. Á Íslandi er flaggað í hálfa stöng. Karl Gustaf  kon­ung­ur Svíþjóðar, sagði hann „frum­kvöðul“ sem hafi komið „Svíþjóð á heimskortið“. Stef­an Lof­ven sagði hann hafa „gert hús­gögn fá­an­leg fyr­ir fjöl­marga en ekki ein­göngu fáa“.

Heim­ild­ir meðal ann­ars BBC og AFP-frétta­veit­an

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka