Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun flytja sína fyrstu árlegu stefnuræðu (e. State of the Union) í Washington D.C. í kvöld. Búist er við að um fjörtíu milljónir muni fylgjast með ræðu forsetans.
„Þetta er stór ræða, mjög mikilvæg ræða,“ sagði forsetinn í gær. Hefð hefur myndast fyrir því að starfandi forseti nýti vettvanginn til að fara yfir það sem vel hefur tekist á liðnu ári og undirstrika áherslumál næstu missera. Líklegt verður að teljast að Trump muni hreykja sér af árangri í efnahagsmálum, auknum hagvexti og skattalagabreytingum.
Trump mun flytja ræðu sína á Capitol hæð, áður en sameiginlegur þingfundur þingdeildanna tveggja hefst. Venju samkvæmt mun fulltrúi stjórnarandstöðuflokksins taka til máls þegar forsetinn hefur lokið máli sínu. Það mun koma í hlut demókratans Joseph Kennedy þriðja, 37 ára barnabarns Roberts Kennedy, sem var bróðir John F. Kennedy, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Joseph er þingmaður fyrir Massachusetts ríki.
Á vefsíðu Politico má finna ýmsan hagnýtan fróðleik tengdan viðburðinum í kvöld, meðal annars hverjir munu afþakka boð forsetans. Þeirra á meðal eru nokkrir þingmenn Demókrataflokksins, til að mynda Pramila Jayapal, John Lewis, Maxine Waters og Frederica Wilson, en með sniðgöngunni vilja þau mótmæla ummælum Trumps um að íbúar frá Haítí og öðrum Afríkuríkjum væru frá „skítalöndum.“
Ræða Trumps hefst klukkan 21 að staðartíma, eða klukkan 2 í nótt að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með ræðunni á vef Hvíta hússins og í myndskeiðinu hér fyrir neðan.
Engin tímamörk eru á ræðunni svo það er aldrei að vita nema að Trump láti gamminn geisa. Bill Clinton hélt lengstu ræðuna á sínum tíma, þegar hann talaði í 89 mínútur. Ronald Reagan hélt stystu ræðuna af sama tilefni þegar hann talaði í 31 mínútu.