Trump hvetur til samstöðu

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, flutti sína fyrstu stefnuræðu í nótt en þar hvatti hann til samstöðu þjóðarinnar, styrkingu landamæra og öflugar varnir hersins til þess að hrinda aftur ógnum sem steðja að Bandaríkjunum.

Trump, sem hefur verið mjög umdeildur frá því hann tók við embætti forseta fyrir ári síðan, lagði áherslu á það sem sameinaði bandarísku þjóðina í ræðu sinni. „Við öll sameinuð sem eitt lið, ein manneskja og ein bandarísk fjölskylda getum allt,“ sagði Trump meðal annars í ræðunni.

Hann hvetur til endurreisnar innviða og að þingið samþykki lög sem heimili gríðarlega háar fjárhæðir ( að minnsta kosti 1,5 trilljon USD) í nýjar innviða fjárfestingar sem landið þurfi sárlega á að halda. 

„Við munum byggja leiftrandi nýja vegi, brýr, hraðbrautir, járnbrautir og siglingaleiðir víðs vegar um landið okkar,“ sagði Trump.

Skattar hafa verið lækkaðir og ný met ítrekað sett á hlutabréfamörkuðum, fyrirtæki og störf eru að koma aftur til Bandaríkjanna, sagði Trump um efnahagsmálin í ræðu sinni.

„Í mörg ár fóru fyrirtækin og störfin frá okkur. En nú eru þau að koma aftur. Þau eru að koma aftur því þau vilja vera þar sem hlutirnir gerast.“

Að sögn Trump byggir núgildandi stefna í innflytjendamálaum á því að heimila glæpagengjum og eiturlyfjum að koma til landsins og fremja nýlegar árásir öfgamanna. Hann fór yfir aðgerðaráætlun sína í innflytjendamálum og hvetur þingið til þess að grípa þegar til aðgerða í þeim málum.

„Það er orðið tímabært að umbreyta þessari úreltu innflytjendalöggjöf og að loksins koma innflytjendakerfinu okkar inn á 21. öldina,“ sagði forseti Bandaríkjanna.

Hann segir Kínverja og Rússa andstæðinga Bandaríkjanna í efnahagsmálum og ögri hagsmunum og gildum Bandaríkjanna. Eldflaugar Norður-Kóreu geta einnig ógnað ættjörðinni innan skamms tíma, segir Trump. 

Trump hvetur Bandaríkjaþing einnig til þess að tryggja það að bandarísk yfirvöld fái allar þær heimildir sem þarf til þess að handataka hryðjuverkamenn erlendis og að fangabúðunum við Guantanamó-flóa á Kúbu verði haldið opnum áfram.

Hér er hægt að hlusta á ræðu Trumps

Donald J. Trump forseti Bandaríkjanna flutti sína fyrstu stefnuræðu í …
Donald J. Trump forseti Bandaríkjanna flutti sína fyrstu stefnuræðu í nótt. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert