Veiðimaður er á batavegi eftir að dauð gæs féll af himnum ofan og í höfuð hans svo hann missti meðvitund.
Veiðimaðurinn, Robert Meilhammer að nafni, var við veiðar í Dorschester-sýslu í Suður-Karólínu við fjórða mann. Einn úr hópnum skaut á hóp gæsa og ekki vildi betur til en svo að ein þeirra, sem varð fyrir skoti, féll til jarðar og hafnaði á höfði Meilhammers.
Þetta kemur fram í frétt Washington Post. Blaðið hefur eftir talsmanni lögreglunnar að þegar Meilhammer hafi komist til meðvitundar hafi hann vitað nafn sitt en „fátt annað“, svo ringlaður var hann eftir höggið.
Meilhammer liggur enn á sjúkrahúsi en er á batavegi.