Sauma fyrir H&M með 128 kr. á dag

Konur að störfum á saumastofu í Afríku. Fötin eru framleidd …
Konur að störfum á saumastofu í Afríku. Fötin eru framleidd fyrir stórverslanir sem selja þau á Vesturlöndum. AFP

Þær fá um 10 sænskar krónur á dag eða um 128 íslenskar krónur fyrir að sauma föt fyrir stórar verslunarkeðjur á borð við H&M. Þær fá enga veikindadaga greidda og ekkert orlof. Saumakonur í Eþíópíu eru óánægðar með þau kjör sem þeim er boðið. „Mér finnst verið að nota mig,“ segir ein þeirra í samtali við sænska ríkissjónvarpið. Hún býr í borginni Hawassa í Eþíópíu. Hún segist finna til með þeim sem vinni ólöglega utan sinna landsteina. „En hér á misnotkunin sér stað í mínu eigin heimalandi.“

Fréttamenn sænska ríkissjónvarpsins fóru til Eþíópíu til að hitta starfsfólkið sem saumar föt sem seld eru á Vesturlöndum. Ein kvennanna sem þeir ræddu við segist ekki reiðust vinnuveitendum sínum heldur stjórnvöldum í Eþíópíu sem laða erlend fyrirtæki til landsins með boðum um ódýrt vinnuafl.

„Ríkisstjórnin og vinnuveitendur okkar samþykkja launin okkar. Þeir vita hversu erfitt starf þetta er.“

Konan var í menntaskóla er henni var boðin vinna í saumaverksmiðjunni. Hún segir launin sem voru í boði hafa verið hærri en þau sem kennarar í landinu fengu á þeim tíma. Hún fór í saumanám en þegar hún kom svo til starfa voru launin lægri en henni hafði upphaflega verið sagt. Þau eru í raun aðeins þriðjungur af því sem hún hélt að þau yrðu. „Og ef maður er veikur í einn dag þá missir maður 20% af mánaðarlaununum.“

Saumakonan segir helminginn af laununum fara í að greiða fyrir leigu á litlu herbergi sem hún deilir með öðrum. Hún borði eins ódýran mat og hún geti.

Setið við saumavél. Konurnar á saumastofunni í Eþíópíu fá um …
Setið við saumavél. Konurnar á saumastofunni í Eþíópíu fá um 128 krónur á dag. AFP

Konan segir fréttamönnum að hún njóti vinnunnar sem slíkrar, vinnuaðstæðurnar séu góðar. Þá gleðst hún yfir að heyra að orðspor fatnaðar H&M sé gott í Svíþjóð.

„En til lengri tíma litið þá getum við ekki lifað á þessum launum, verð á mat fer sífellt hækkandi.“

Í ítarlegri fréttaskýringu sænska ríkissjónvarpsins kemur fram að fyrirtækið sem konan vinnur hjá sé kínverskt og yfirmaður þess indverskur. Í borginni Hawassa hafa fyrirtæki frá að minnsta kosti ellefu löndum komið upp starfsemi og hjá þeim starfa um 14.000 manns og fleiri störf eru að fæðast.

Stjórnvöld í Eþíópíu reyna að höfða til erlendra fjárfesta til að ýta undir efnahag landsins. Það hefur skilað ákveðnum árangri, í krónum og aurum talið.

„Framtíð vefnaðarvöruframleiðslunnar er hér í Eþíópíu,“ hefur sænska ríkissjónvarpið eftir Raghav Pattar, forstjóra saumaverksmiðjunnar, sem hefur unnið í fyrirtækjarekstri í landinu í sex ár. Hann segir árangur nást vegna margra þátta, m.a. lágra launa í landinu og hæfs starfsfólks.

Fötin sem framleidd eru í verksmiðjum fátækra ríkja eru svo …
Fötin sem framleidd eru í verksmiðjum fátækra ríkja eru svo seld í verslunum á vesturlöndum. AFP

Fréttamenn sænska ríkissjónvarpsins segjast hafa boðið H&M að svara fyrir þau laun sem verkafólkinu sé boðið en fyrirtækið hafnaði því. Í staðinn sendi fyrirtækið tilkynningu þar sem sagt var að engin lágmarkslaun væru skilgreind í eþíópískum lögum og reglum. Fyrirtækið segist hins vegar vinna stöðugt að því að skapa aðstæður fyrir réttlát laun í Eþíópíu og öðrum löndum. Þá segist fyrirtækið taka þátt í verkefni sem á að hjálpa starfsmönnum að þekkja réttindi sín. 

Fréttamennirnir ræddu við marga starfsmenn í saumaverksmiðjunni og staðfestu þeir að óánægja væri með launin. Þeir vildu hins vegar ekki koma fram undir nafni líkt og helsti viðmælandi sænska ríkissjónvarpsins, hin 22 ára gamla Yebahirsew Tibebu. Hún telur að laun og aðstæður eigi ekki eftir að breytast fyrr en viðskiptavinir fyrirtækjanna sem vörurnar eru framleiddar fyrir þrýsti á um slíkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert