Trump segir sakleysi sitt sannað

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti telur að umdeilt minnisblað sem birt var á föstudaginn veiti honum uppreist æru vegna ásakana um meint tengsl kosningateymis hans við ráðamenn í Rússlandi. Fullyrt er í minnisblaðinu, sem samið er af flokksmönnum forsetans á Bandaríkjaþingi, að rannsókn á málinu hafi ekki verið hlutlæg.

Fram kemur í minnisblaðinu að rannsóknarskýrsla sem fjármögnuð hafi verið af demókrötum hafi verið grundvöllurinn að njósnum FBI um fyrrverandi aðstoðarmann Trumps meðan á kosningabaráttunni í aðdraganda forsetakosninganna 2016 hafi staðið. Trump segir á Twitter-síðu sinni að minnisblaðið sýni fram á sakleysi hans.

Forsetinn bætti við að eftir sem áður myndu nornaveiðarnar halda áfram. Engin óeðlileg tengsl hafi verið við rússnesk stjórnvöld. Sagði Trump að ásakanirnar væru hneyksli. Enginn talaði hins vegar um minnkandi atvinnuleysi og hækkandi kaupmátt. Demókratar segja langan veg frá því að sakleysi Trump hafi verið sannað.

„Þvert á móti, herra forseti,“ sagði Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins, á Twitter-síðu sinni. Minnisblaðið sýndi fram á að rannsókn FBI á málinu hafi hafist í júlí 2016 vegna upplýsinga um að þáverandi ráðgjafi Trumps, George Papadopoulos, hafi rætt með leynd við Rússa um tölvupósta sem stolið hafði verið frá demókrötum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert