75% repúblikana telja FBI grafa undan Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Þrír fjórðu repúblikana telja FBI og dómsmálaráðuneytið …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Þrír fjórðu repúblikana telja FBI og dómsmálaráðuneytið reyna að grafa undan trausti í garð forsetans. AFP

Þrír af hverj­um fjór­um re­públi­kön­um telja banda­rísku al­rík­is­lög­regl­una FBI og dóms­málaráðuneyti lands­ins vera að reyna að grafa und­an Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta. Þetta eru niður­stöður skoðana­könn­un­ar Reu­ters/​Ip­sos sem birt var í dag.

Þykir þetta mik­il viðsnún­ing­ur fyr­ir Re­públi­kana­flokk­inn, sem á langa sögu að baki sem virk­ur stuðningsaðili lög­gæslu­stofn­ana. Meiri­hluti banda­rísks al­menn­ings er engu að síður enn þeirr­ar skoðunar að Trump, eða ein­hver sem starfaði fyr­ir for­setafram­boð hans, hafi í sam­starfi við rúss­neska ráðamenn reynt að hafa áhrif á for­seta­kosn­ing­arn­ar 2016.

Bæði Trump og rúss­nesk­ir ráðamenn hafa ít­rekað hafnað slík­um ásök­un­um.

Skoðana­könn­un­in var gerð dag­ana 3.-5. fe­brú­ar og sýn­ir hún að flokkslín­ur eru sterk­ar er kem­ur að til­raun for­set­ans og banda­manna hans í Re­públi­kana­flokkn­um til að tor­tryggja rann­sókn FBI á mögu­leg­um tengsl­um fram­boðs Trump og Rússa.

Voru 73% re­públi­kana þeirr­ar skoðunar að „starfs­menn FBI og dóms­málaráðuneyt­is­ins væru að vinna að því a draga úr lög­mæti Trumps í gegn­um póli­tíska rann­sókn“. Sama hlut­fall demó­krata sagðist aft­ur trúa því að þing­menn Re­públi­kana­flokks­ins og starfs­fólk Hvíta húss­ins væru að vinna að því að draga úr lög­mæti rann­sókn­ar FBI og ráðuneyt­is­ins á meint­um af­skipt­um Rússa af kosn­ing­un­um.

52% telja Trump hafa unnið með Rúss­um

Seg­ir Reu­ters könn­un­ina sýna þau áhrif sem Trump hafi á re­públi­kana, enda hafi þeir lengi vel treyst lög­gæslu­stofn­un­um bet­ur en aðrir kjós­end­ur.

Þegar traust til FBI var skoðað í janú­ar 2015 sögðust 84% re­públi­kana líta FBI já­kvæðum aug­um. Í síðasta mánuði sögðust 55% re­públi­kana bera mikið traust til lög­gæslu­stofn­ana, sem er mun hærra hlut­fall en þau 30% sem lýstu yfir jafn­miklu trausti í garð stjórn­ar Trumps, eða þeirra 9% sem treystu þing­inu.

Banda­rísk­ur al­menn­ing­ur virðist hins veg­ar ekki hafa skipt um skoðun á Rúss­a­rann­sókn­inni sjálfri. Þannig sögðu 52% aðspurðra að þeir teldu Trump eða ein­hvern hjá fram­boði hans hafa átt í sam­starfi við Rússa og að lík­legt sé að „yf­ir­völd muni finna sönn­un um ólög­leg sam­skipti stjórn­ar Trumps og Rússa“.

Er þetta sama hlut­fall og var þess­ar­ar skoðunar er spurn­ing­in var síðast lögð fyr­ir árið 2017.

Alls tóku 2.251 þátt í könn­un­inni, þar af voru 941 demó­krati og 827 re­públi­kan­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert