Misjafnar skoðanir eru á því hvað orsakaði þá miklu lækkun sem hefur orðið á bandarískum og japönskum hlutabréfamörkuðum.
Ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf í Bandaríkjunum hækkaði lítið fram að janúarmánuði þrátt fyrir að Seðlabankinn þar ytra hefði byrjað árið 2015 að auka aðhald peningamálstefnunnar.
Þetta segir Ragnar Benediktsson hjá IFS, sem er þjónustu- og ráðgjafafyrirtæki á sviði fjármála og greininga.
Mikið innflæði var í hlutabréf í Bandaríkjunum í janúar og hækkaði verð á hlutabréfum um 10%.
„Mikil hækkun ávöxtunarkröfu bandarískra ríkisskuldabréfa er líklega meginorsökin fyrir því að bréf hafa lækkað svo mikið undanfarna daga en atvinnutölur voru birtar fyrir helgi í Bandaríkjunum sem sýndu að raunhagkerfið væri að taka betur við sér en markaðsaðilar gerðu ráð fyrir,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.
Hann nefnir að laun hafi hækkað að meðaltali um 3% í janúar sem sé meira en flestir gerðu ráð fyrir og telur hann líklegt að fjárfestar sjái fyrir sér hækkandi verðbólgu og að launaliður hafi neikvæð áhrif á hagnað.
„Með sterkara raunhagkerfi má búast við því að vextir verði hækkaðir fyrr en ella í Bandaríkjunum. Þetta veldur óvissu og það getur liðið nokkur tími í það að fréttir berist frá nýjum seðlabankastjóra Bandaríkjanna.“
Hann segir ástæðu lækkunarinnar í Bandaríkjunum vera jákvæða en menn spyrji sig samt hvort einhver annar orsakavaldur sé á ferðinni sem menn viti ekki um.
„Þegar rýnt er í tæknigreiningar var verð á hlutabréfum í Bandaríkjunum orðið nokkuð hátt yfir 20 til 100 daga meðaltali og lækkaði verð niður fyrir 20 daga meðaltal í gær. Hækkun á flökti fyrir helgi hafði einnig sín áhrif um að fjárfestar vildu losa stöður og einnig eru líkur á að veðköll hafi haft sín áhrif í gær auk algórithma,“ greinir hann frá.
Ragnar nefnir að raddir hafi þó verið uppi um að dómur gegn Wells Fargo sem féll á föstudag gæti haft í för með sér grundvallarbreytingar á bandaríska bankakerfinu. Líklegra sé þó að dómurinn hafi bara áhrif á bankann sjálfan. Sú skoðun hafi einnig verið höfð uppi að um 1/3 af markaðsaðilum á markaði í Bandaríkjunum hafi ekki upplifað vaxtahækkanir og það hafi valdið óþarfa óróleika.
Fram kemur í hlutabréfaannál IFS sem kom út í byrjun ársins að líkur væru á því að stýrivextir í Bandaríkjunum myndu hækka á þessu ári. „Það eru væntingar um að alþjóðlega hagkerfið verði drifkrafturinn á hlutabréfamörkuðum árið 2018 og þá sér í lagi Evrópa og nýmarkaðsríki og það bandaríska ekki jafnöflugt og á síðasta ári,“ segir í annálnum.
Aðspurður telur Ragnar það líklega koma sér vel fyrir Ísland ef raunhagkerfið í Bandaríkjunum er betra en menn reiknuðu með. Mögulega mun bandarískum ferðamönnum hérlendis fjölga enn frekar, auk þess sem kaupmáttur þeirra á Íslandi myndi aukast með þessu launaskriði sem sást fyrir helgi.
Hann segir lækkanirnar á íslenskum hlutabréfamörkuðum ekki hafa verið eins miklar og hann hafi búist við þegar horft var á beina útsendingu í nótt. „Hefði þetta gerst fyrir einu ári hefðu lækkanirnar kannski verið meiri.“
Hann telur þó að hagtölur frá Bandaríkjunum geti haft áhrif á verðbólgu á Íslandi en líklega ekki lækkanir á hlutabréfaverði eins og sáust á árunum 2008 til 2009.