Þrír stúdentaleiðtogar og aðgerðarsinnar frá Hong Kong eru lausir allra mála eftir að hæstiréttur borgarinnar dæmdi þeim í vil.
Mennirnir þrír, Joshua Wong, Nathan Law og Alex Chow, voru fangelsaðir í ágúst í fyrra fyrir þátttöku sína í fjöldamótmælum árið 2014 gegn kínverskum stjórnvöldum.
Þeir klifruðu yfir girðingar og komust inn í opinberar byggingar í Hong Kong og leiddu aðgerðirnar af sér öldu mótmæla og stóðu yfir í um tvo mánuði.
Neðri dómstóll hafði dæmt þá Wong og Law til samfélagsþjónustu og Chow hlaut skilorðsbundinn dóm. Eftir að ríkisstjórn Hong Kong beitti sér í málinu hlutu þeir sex til átta mánaða fangelsisdóm, sem þeir áfrýjuðu.
Litið hefur verið á dómsmálið gegn þeim Wong, Law og Chaw sem prófstein á sjálfstæði dómsvaldsins í Hong Kong, sem margir óttast að sé undir þrýstingi frá kínverskum stjórnvöldum. Stjórnvöld í Hong Kong höfðu farið fram á þyngri dóm yfir þremenningunum.